Í gær vorum við sett í að hreinsa ruslageymsluna hér á Eggertsgötu 28. Ástæðan var einföld: Vorhreingerning húsfélagsins. Reyndar ýki ég dálítið með því að segja við... það var sko Baldur sem tók að sér að skrúbba gólf ruslageymslunnar, ég aftur á móti hélt til í þvottahúsinu og reyndi að koma tuskunni sem ég hélt á í gagnið.
Þvert á það sem maður hefði kannski búist við var gaman að standa í þessu stórræði enda var stemmningin góð og allir lögðu sitt af mörkum við að gera þessa sameigin og nánasta umhverfi okkar vistlegra.
Ekki veit ég hvort hreingerningarnar tóku svona mikið á en einhverra hluta vegna sváfum við yfir okkur í morgun. Það kemur þó ekki að sök, Baldur er ekki byrjaður að vinna og ég get blessunarlega mætt hvenær sem mér sýnist. Því ætla ég að halda við planið sem gert var í gærkveldi þegar ráðgert var að vakna fyrr raunin varð, þ.e. fara að lyfta. Axlir og handleggir eru orð dagsins.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli