fimmtudagur, 3. júní 2004

Oh, hvað er að póstinum?

Þetta var það fyrsta sem Baldur sagði þegar við stigum inn fyrir hússins dyr eftir góða æfingu í Þrekhúsinu. Hann hélt á póstkorti og einblíndi á það reiðilega. Ég leit yfir öxl hans og sá að hann hélt á póstkorti með ósköp sætri kisu framaná, kisu sem lá á litlum sólbekk og hafði það huggulegt.

Eitthvað kannaðist ég við þetta póstkort... já, póstkortið sem við sendum Stellu og Kristjáni frá Frakklandi. Hmm... hvað var það að gera hér hjá okkur? Í nokkur fleiri andatök starði Baldur reiðilega á kortið á meðan ég braut heilann um hvernig í ósköpunum kortið hefði ratað inn um okkar lúgu. Vissi pósturinn að Stella og Baldur væru systkin og ákvað að stríða okkur aðeins? Eða höfðu Stella og Kristján sjálf komið með kortið yfir sem skilaboð til okkar: ekki fleiri póstkort!!?

Æ, útskýringin var ósköp einföld, Balduro mio, mesta krútt í heimi, hafði skrifað okkar heimilisfang á kortið. Já, lífið er dásamlegt þegar Baldur er nærri :)

Engin ummæli: