Við kíktum niður í bæ seinnipartinn í dag. Hjóluðum að Ráðhústorgi og læstum hjólunum nálægt 7/11 búðinni á horni Striksins. Síðan gengum við í rólegheitunum niður Strikið og virtum fyrir okkur verslanir og mannlífið.
Það skemmtilega við Strikið er að þar er alltaf mikið af fólki og yfirleitt eru einhverjir götulistamenn til taks til að stytta manni stundir. Í þetta sinn sáum við tvo gaura uppstrílaða sem indíana Norður Ameríku, spilandi á panflautur.
Múnderingin sem þeir klæddust var svo yfirdrifin að sýning þeirra missti trúverðugleika sinni en það skipti engan máli, þetta var nefnilega áhugavert fyrir augað. Við sáum einnig annað sem kætti okkur en það var skartgripaverslunin Ásdis sem er í einni af hliðargötum Striksins.
Baldur bauð mér síðan á miðjarðarhafshlaðborð hjá Rizz Razz og þar gæddum við okkur meðal annars á falafel, chilli- og hvítlaukssósu. Þegar þarna var komið sögu var tekið að rökkva og við tókum stefnuna heim. Á bakaleiðinni upp Strikið rákumst við hins vegar á götusala sem lagt hafði ýmis málverk til sýnis á stéttina.
Við stöldruðum við hjá honum og eftir smá prútt enduðum við á því að kaupa af honum þrjú málverk sem eiga að prýða heimili okkar hér í Kaupmannahöfn.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli