Enn á ný lögðum við leið okkar í Frederiksberg Have með frisbídisk en að þessu sinni var aukapoki í farteskinu, gamalt og hart brauð. Okkur langaði svo að gefa öndunum hér í Danmörku eitthvað að borða, rétt eins og við gerðum reglulega heima.
Eftir hjólatúr, rölt og frisbíkast heimsóttum við fuglana sem voru heldur betur glaðir að sjá okkur. Hins vegar áttuðum við okkur á því þegar við byrjuðum að gefa þeim að brauðið var álíka hart og hrökkbrauð en það mýktist sem betur fer eftir smátíma í vatninu.
Einn svanurinn vildi nú helst koma upp á bakkann og knúsa brauðpokann en við náðum að plata hann ofaní aftur með vænum brauðbita. Þar sem maður er ekki vanur að sjá svani kom á óvart hversu risastórir þeir eru og að hljóðin frá þeim minna alls ekki á álftirnar heima heldur meira á svín.
Þar með er ég kominn með nýja hljóðbreytingakenningu sem á eftir að gjörbylta íslenskum málvísindum, í verður a og fær hvítar fjaðrir í leiðinni. Já, svín breytist í svan og með fjaðuráhrifunum liggur þetta í augum uppi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli