Sem við Ásdís hjóluðum heim í gær féllu nokkrir dropar úr lofti sem er svosum ekki í frásögur færandi. Ég mæli þá svo um að við skyldum hraða förinni þar sem dönsk rigning gæti orðið allmikil. Ekki höfðum við lengi hjólað þegar miklar drunur heyrast að ofan og viti menn, á 30 sekúndum vorum við bæði orðin gegndrepa. Veðurguðirnir létu þó ekki staðar numið heldur þeyttu þeir hlunkastórum haglkúlum yfir okkur þangað til heim var komið.
Eftir fataskipti og þurrkun hjóluðum við ekki (tókum strætó) í mat til Stellu og Kristjáns. Þar fengum við þær fréttir að Kristján hefði líka lent í rigningunni en ekki fengið kaupaukann, haglið. Eftir almenn fréttaskipti fengum við frábæran mat og í eftirrétt var tófúís, ekkert smá góður. Ég er nú ekki mesti tófúkarl í heiminum en þessi ís var alger snilld.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli