föstudagur, 30. september 2005

Turen går til Italien

Eftir dönskutíma í dag röltum við Stella um miðbæ Kaupmannahafnar. Við kíktum á aðalbókasafnið sem ég hafði aldrei áður heimsótt. Mér þótti mikið til koma enda safnið stórt og bókakosturinn góður.

Við skiptum liði og á meðan Stella leitaði að hannyrða- og chick-flick bókum þefaði ég uppi ferðahandbækur. Ég var nefnilega að leita að ferðabókum um Ítalíu og Róm. Heppnin var með mér og ég fann tvær góðar, Turen går til Italien og Politikens visuelle guide: Rom.

Ástæðan fyrir þessum óvænta áhuga mínum á Ítalíu er einföld: Í gær gerðum við kærustuparið okkur lítið fyrir og röltum inn á ferðaskrifstofu Star Tours og fjárfestum í ferð til Ítalíu. Við fljúgum út þann 17. október og komum heim viku síðar. Þá vikuna er nefnilega haustfrí í skólanum hjá okkur og kallast þessi vika víst kartöfluvikan, með vísan í gamla tíma þegar börn bænda fóru heim á þessum tíma til að hjálpa við uppskeruna.

Við verðum á ferðamannastaðnum Terracina sem er um 100 km suður af Róm. Svo vitaskuld stefnum við á dagsferð þangað. Það sem mér finnst þó merkilegast er að Pompeii er einnig nálægt en þangað hefur mig langað að fara síðan ég fyrst heyrði söguna um gosið í Vesuvius og dulafulla varðveitingu hinna látnu. Skemmtilegt nokk þá sáum við Baldur heimildamynd nú nýlega um Pompeii og gosið en þá grunaði okkur ekki að við værum á leið þangað.

Nú er ráð að leggjast yfir bækurnar tvær og lesa sér til um pleisið.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Vá svo þið eruð að fara til Italíu, enn gaman ég öfunda ykkur nú smá sko he.he..kærar kveðjur úr sveitinni María og co.