Þegar við vöknuðum í morgun var dimmur himinninn horfinn og heiðblár litur kominn í hans stað. Við ákváðum að rölta í miðbæinn og kynnast þessum sæta bæ betur. Við röltum eftir strandgötunni með hraðskreiða bíla á aðra höndina og dásamlegt hafið á hina. Við kíktum m.a. á höfnina og fylgdumst með gömlum köllum dytta að netum og bátum.
Ólíkt upplifun okkar daginn áður iðaði bærinn nú af mannlífi. Eldri konur sátu meðfram höfninni og inn eftir þröngum götum seljandi afla næturinnar upp úr frauðbökkum, eldri kallar sátu undir sólhlífum og skeggræddu um afla næturinnar. Aðrir voru uppteknir við að setja upp grænmetisbásana sína og restin af mannlífinu voru kröfuharðir viðskiptavinir og forvitnir ferðamenn (þ.e. við).
Við settumst inn á veitingastað við strandgötuna og eftir túnfiskpasta og gnocchi röltum við upp á hótel til að skipta yfir í baðfötin. Sundsprettur í sjónum var frískandi og vatnið afskaplega þægilegt. Að sjálfsögðu virtum við hefðir heimamanna og tókum okkur síestu á handklæðum í mjúkum sandinum.
Um kvöldið kíktum við síðan á L'Universitá, litla pizzeríu við ströndina sem selur pizzur eftir metramáli. Þar pöntuðum við okkur hálfan metra af margarítu og glugguðum í bókina um Róm til að undirbúa borgarferðina sem við ætlum í á morgun. Orð dagsins: yndisleg afslöppun.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli