fimmtudagur, 10. nóvember 2005

Álög burðarrúmsins

Mig langar til að deila með ykkur skemmtilegri lífsreynslu sem ég varð fyrir í dag. Þannig var að Stella og Kristján höfðu beðið mig að sækja burðarrúm heim til sín og koma með það til þeirra á fæðingadeildina. Lítið mál að ná í eitt burðarrúm og fyrst ég var nú kominn var alveg eins gott að koma við í Nettó áður en ég tæki strætó heim.

Ég snara mér inn í búðina og tek eftir að nokkrir einstaklingar líta mig heldur betur hornauga. Botna nú ekki alveg í því og skáskýt mér framhjá einhverjum sem gekk alltof hægt og rann það þá upp fyrir mér. Fólk var einfaldlega felmtri slegið því ég gekk um og meðhöndlaði burðarrúmið eins og íþróttatösku eða innkaupapoka. Ég lái þeim það ekki því við fyrstu sýn hafa auðvitað allir haldið að ég héldi á litlu barni. Hver fer líka með tómt burðarrúm út í búð?

Skemmtilegasta búðarsjokkið var þó þegar ég stóð við mjólkurkælinn og henti nokkrum lítrum af mjólk ofan á burðarrúmið eins og það væri innkaupakarfa, það kallaði óneitanlega fram svipbrigði hjá manneskjunni við hliðina á mér.

Þegar út var komið hélt ég í humátt að næsta strætóskýli og tók eftir ókunnugri konu með barnavagn sem sendi mér svona skilningsríkt bros, eins og við ættum eitthvað sameiginlegt. Ég skildi náttúrulega ekkert hvað gekk á og sendi henni einhverskonar vandræðalegt og skilningslaust hálfbros á móti en fattaði um svipað leyti að þetta voru álög burðarrúmsins.

Engin ummæli: