Ég sat í gær í sakleysi mínu við lestur og hlustaði með hálfum hug á samtal Baldurs við afa sinn. Ég fékk fljótlega á tilfinninguna að ég sæti og hlustaði á tal tveggja gamalla vina sem staddir væru á Eir eða einhverju álíka virðulegu hjúkrunarheimili. Samtalið hafði nefnilega leiðst út á brautir sem manni finnast einkenna slíkar stofnanir.
Það sem ég heyrði af samtalinu var framlag Baldurs og það var einhvern veginn svona: Hvað er að frétta af Jónu? Já, já vill hún ekki flytjast nei. Já, það er nú gott, það er á jarðhæð, það verður auðveldara fyrir hana. Já, er hún slöpp í mjöðminni greyið, erfið til gangs, seisei. Já, já hvernig veiktist hann? Nú já er hann dáinn. Er langlífi í ættinni? Látum okkur nú sjá, ég er kominn hér inn á Íslendingabók...
Og svona hélt það áfram nema hvað ég hafði smitast og var nú sjálf komin inn á Íslendingabók að grúska í gömlum ættliðum. Forvitnust var ég að skoða þá laufguðu grein ættartrésins sem sprottið hefur frá langafa mínum í móðurætt, honum Sigurði Sigurðssyni frá Pálsbæ á Seltjarnarnesi. Ég hafði alltaf heyrt talað um hann sem kvennamann mikinn og eftir smá rannsókn sá ég með eigin augum að svo var. Eða hvað annað er hægt að kalla mann sem eignaðist 15 börn með átta konum? Sum árin tókst honum meira að segja að eignast tvö börn, þó ekki með sömu konunni.
Alls ekki svo slæmt ættartréð mitt með svona litskrúðugum, fjölfjöðruðum fugli inn á milli laufanna - ef maður sér að glasið er hálffullt altsvo.
1 ummæli:
Þetta sýnir aðlögunarhæfni Baldurs, að geta tekið þátt í og jafnvel leitt svona gamlingjalegt tal. Sigurður í Pálsbæ var fimmmenningur við pabba minn, og finnst mér það lítill skyldleiki, því að flestir gamlir Seltirningar voru meira skyldir mér, og þá í móðurætt mína.Gaman er að frétta, að Ásdís skuli eiga svona kynsælan forföður.
Skrifa ummæli