Eftir morgunmat kíktum við á Sívalaturn (Rundetårn) þar sem við hittum vinafólk Heiðars. Fyrir utan turninn var verið að selja brenndar möndlur og Baldur var svo sætur að muna eftir því að ég ætti þær inni. Ég var búin að bíða lengi eftir þessu og varð ekki fyrir vonbrigðum. Þær voru æði!
Úr Sívalaturni var frábært útsýni yfir borgina og heiðskír himinn spillti ekki fyrir. Baldur las upphátt um Sívalaturn úr Kaupmannahafnar-bókinni okkur hinum til mikillar skemmtunar enda minni hann helst á prest að messa yfir börnum sínum þegar hann stautaði sig úr latneskum frösum á borð við regna firmat pietas eða guðsótti styrkir þjóðríkin. Þess ber að geta að orðin er að finna utan á turninum og voru kjörorð Kristjáns IV konungs, en hann var einmitt sá sem átti hugmyndina að byggingu turnsins.
Kuldinn rak okkur fljótlega aftur niður á jörðina í leit að stað til að verma hendur og tær. Við enduðum á Diamanten, litlu kaffihúsi við Gammel Strand, þar sem við pöntuðum okkur ógeðslega góða samloku með buffala mozzarellu.
Við kvöddum síðan samferðarfólkið og héldum þrjú leið okkar yfir til Nørreport þaðan sem við tókum lestina yfir til Malmö til að komast í innflutningspartý hjá Tati. Við komum við í gjafabúð á lestarstöðinni í Malmö og keyptum hreindýr á ísskápinn í innflutningsgjöf sem hitti í mark hjá gestgjafanum.
Partýið var í stuttu máli svona: fengum ógeðslega góðar innbakaðar, júgóslavneskar grænmetisbökur með spínati og kotasælu og líka fullt af ólívum og fetaostsalati, smökkuðum þurrsteiktan maís, spjölluðum við sænska stelpu og breskan kærasta hennar um tangó og bosníska stelpu um Indland. Blönduðum dönsku og sænsku út í eitt en áttum erfitt með að átta okkur á króatískunni. Þrjátíu manns á 20 fermetrum - þröngt mega sáttir sitja.
Við urðum að yfirgefa gleðskapinn upp úr eitt til að ná lestinni heim. Þar sem leigubíllinn sem við pöntuðum lét aldrei sjá sig húkkuðum við þann næsta sem átti leið hjá. Leigubílstjórinn sá útskýrði fyrir okkur að hann hefði verið á leiðinni að ná í annan farþega en ákveðið að taka okkur upp í í staðinn. Ef allir leigubílsstjórar í Malmö haga sér svona er það engin ráðgáta lengur hvað varð um leigubílinn sem við pöntuðum.
Í lestinni á leiðinni heim ræddum við síðan um stjörnurnar, sólkerfin og vetrarbrautirnar. Við spöruðum okkur líka fargjaldið í næturvagninn þar sem maskínan fyrir klippikortin var biluð. Það var ógeðslega skemmtilegt.
2 ummæli:
Já, ógeðslega skemmtilegur dagur.
Skemmtilegast var þó líklega hanskaatriðið, héhéhé...
Þakka annars fyrir konunglegar móttökur og góða helgi!
Að ógleymdu hanskaatriðinu, alveg rétt! Góð samvinna þar á ferð myndi ég segja og skemmtilegt hvað fórnarlambið var ginkeypt :0)
Skrifa ummæli