þriðjudagur, 14. febrúar 2006

Í tilefni dagsins

Í dag er bjart yfir hvernig sem á það er litið. Himinninn er heiður, sólin sendir geisla sína yfir okkur og ég er búin að lesa fyrir tímann í dag! Ég var nefnilega ekkert alltof duglega að mæta lesin fyrir tímana á haustönn en nú verður breyting á.

Ég er meira að segja farin að huga að lesefni næstu viku. Þá komum við til með að horfa á myndina The Good Earth og er mælt með því að lesa skáldsöguna fyrir tímann. Ég er einmitt á leiðinni út úr dyrunum til að ná í bókina sem nú bíður mín á bókasafninu. Ég hef þá eitthvað að lesa í strætó á leiðinni í tíma, en slík nýting á tíma er mér alls ekki þvert um geð.

Það sem gefur þessum degi þó mest gildi er að ég á stefnumót við frábæran gæja í kvöld. Sá ætlar að bjóða mér út að borða á tælenska veitingastaðinn Alissa, síðan á Baresso kaffihúsið fyrir eftirréttinn og að lokum ætlar hann með mig í bíó að sjá myndina Mit liv som geisha.

Í tilefni af þessu er ég búin að klæða mig í nýja dressið og gera mig sæta og fína. Það er nefnilega ekki á hverjum degi sem manni er boðið á stefnumót. Það er heldur ekki á hverjum degi sem maður heldur upp á fimm ára sambandsafmæli.

Engin ummæli: