Við Stella og Áslaug Edda horfðum um daginn á myndina Pride & Predjudice og höfðum gaman af. Í framhaldi af því lánaði Stella mér bókina sjálfa í íslenskri þýðingu en ég hafði fram til þessa aðeins lesið hana á ensku.
Ég las bókina síðan í einum rykk í gær og vitaskuld varð mér hugsað til þess þegar ég las hana síðast. Það var árið 2000 þegar ég var au-pair í Bordeaux og hafði bara enskar bókmenntir og höfunda eins og Jane Austen og Brontë systur til að halla höfði mínu að.
Síðar sama kvöld og ég hafði lokið við Hroka og hleypidóma var ég komin upp í rúm og ætlaði að halda áfram þar sem ég hafði horfið frá Vefaranum mikla frá Kasmír. Ég flettir upp að síðu 101 og las: Steinn var vanur því að heiman að sannfæra á fimm mínútum þá sem á hann hlýddu, og ekkert hefði honum fundist eðlilegra hér en múnkurinn hefði risið á fætur, kastað kufli sínum, afneitað hinni einu trú og æpt: Eviva la bandiera rossa!
Meðan ég las þessa klausu velti ég því fyrir mér hve í takt við persónu Darcy þetta væri, það væri sko honum líkt að hugsa svona... Svo mundi ég að þetta var alls ekki Darcy að tala heldur Steinn Elliði úr Vefaranum mikla frá Kasmír. Ég ákvað að sýna skáldinu meiri virðingu og halda ekki lestrinum áfram fyrr en ég hefði almennilega sagt skilið við persónur fyrri skáldsögunnar. Því þó Jane Austen og Halldór Laxness séu bæði góðir höfundar eru þau það á sínu hvoru sviðinu og ég held það sé farsælast að blanda þeim ekki um of saman.
2 ummæli:
Akkurru ekki? Mér finnst þetta alveg gráupplagt rannsóknarefni... Blundar Steinn Elliði í Darcy?
Ég er sammála síðasta ræðumanni. Samanburður á Steini Elliða og Mr. Darcy er hreint ekki svo galinn.
Skrifa ummæli