Hjólandi úr ræktinni fyrr í dag áttaði ég mig á því að dvölin í Kaupmannahöfn hefur hert hjarta mitt gagnvart dúfum. Ég hef hægt og rólega þróað með mér andstyggð á þeim. Ekki hjálpar fuglaflensan svo upp á ímyndina. Né að finna þær hálfétnar og fiðurlausar í morgunsárið.
Þær virka á mig sem sóðalegar og afspyrnu vitlausar, en það er eflaust bara af því þær líta hvorki til hægri né vinstri áður en þær vappa út á hjólabrautina og beint fyrir hjólið mitt. Eða af því þær horfa ekki í kringum sig áður en þær fljúga upp og næstum í fangið á manni.
Ég skil alltaf betur og betur áróðurinn sem við Baldur sáum í Holland Park í London 2003. Þar var verið að hveta almenning til að gefa ekki dúfunum og það sagt vera álíka heimskulegt og ef maður færi að brauðfæða rottur borgarinnar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli