fimmtudagur, 6. apríl 2006

Nýju hlaupaskórnir keisarans

Nei, ég hleyp ekki berfættur eins og fyrirsögnin gefur til kynna, þetta hljómaði bara svo vel.

Nýverið gerðum við Ásdís okkur ferð í verslunarmiðstöðina Fields á Amager til þess að kaupa svakafína Asics hlaupaskó á mig. Skórnir kostuðu ekki nema 300 danskar krónur sem er um það bil fimmtipartur verðsins á Íslandi og vel innan við helmingur almenns verðs hér. Við keyptum að sjálfsögðu 10 pör til að spara sem mest.

Nú eru dýrgripirnir komnir á sinn stað og standa ásamt öðrum skrautmunum uppi á hillu inni í stofu (neinei). Síðan ég eignaðist skóna er ég búinn að hlaupa eins og vitleysingur tvisvar í viku og er ansi ánægður með þá. Alla jafna hleyp ég á færibandi í gymminu sem gerir mér auðveldara fyrir að fylgjast með bætingum og forðast reykjandi Dani.

Mér finnast hlaupin koma ágætlega út samhliða lyftingaæfingunum en ég verð að játa að ég er persónulega ekki mikið fyrir að þolæfingar fari mikið yfir hálftímann svo ég sé nú ekki fram á að fara upp fyrir 8 kílómetrana alveg á næstunni. Núna er markmiðið mitt að ná gamla 5 km tímanum en hann er 18 mínútur sléttar. Læt ykkur vita þegar það tekst.

Engin ummæli: