fimmtudagur, 25. maí 2006

Ellen og sápubrúsarnir

Um daginn var ég að horfa á uppistand með Ellen DeGeneres, bandarískur grínisti sem ég held upp á því hún fær mig til að hlæja. Í þessu uppistandi var hún að tala um hve henni fyndist skrýtið að sjá leiðbeiningar aftan á sjampó- og hárnæringarbrúsum en sérkennilegast fyndist sér að sjá 1-800 númer aftaná, þ.e. símanúmer sem hægt er að hringja í og fá frekari upplýsingar.

Svo var ég í sturtu og auðvitað komu þessar pælingar upp í huga mér. Ég tók til við að gramsa í sjampósafninu okkar í leit að þessum upplýsingum. Stutt athugun leiddi í ljós að það var hvorki upplýsingar né símanúmer að finna á Go for '2 sjampóbrúsanum, á Alberto hárnæringunni voru leiðbeiningar en ekkert númer og á Fructis sjampóinu fann ég hjálparnúmer en engar leiðbeiningar.

Mér finnst að ef menn ætla á annað borð að standa í þessu sé ráðlegast að gera það almennilega og hafa bæði nákvæmar leiðbeiningar og númer í hjálparlínu. Maður veit aldrei hvenær maður getur þurft á því að halda: "Heyrðu, ég er komin með sjampóið í hárið en það bara freyðir ekki. Bleytti ég það? Neeeei..."

1 ummæli:

baldur sagði...

Sammála þér með Ellen, hún er ekkert smáfyndin.