Að undanförnu hef ég unnið hörðum höndum að ritgerð um Ólympíuleikana. Varla er hægt að vinna ritgerð um jafn merkilegt efni án þess að eyða nokkru púðri í hina löngu og heillandi sögu þess.
Árið 776 f. Kr. setti Ifítos konungur Elis fyrstu Ólympíuleikana. Á þessum fyrstu leikum kepptu einungis karlmenn og klæddust þeir ekki öðru en lendaskýlu. Nei, þeir voru ekki naktir eins og margir halda. Það var ekki fyrr en 56 árum síðar sem nektin komst í tísku meðal grískra íþróttamanna eða árið 720 f. Kr.
Það var íþróttamaðurinn Orsippos sem ruddi brautina fyrir striplingana þegar hann missti niður um sig skýluna í miðri keppni, kláraði og vann. Eftir það kepptu menn naktir á Ólympíuleikunum í rúmlega þúsund ár eða þangað til helgislepjan Þeódósíus Rómarkeisari lét banna leikana.
Það má því segja að Orsippos hafi aldeilis verið áhrifamikill tískufrömuður, a.m.k. get ég ekki ímyndað mér að nokkur íþróttamaður samtímans geti mögulega haft svona mikil áhrif á tískuna. Maður veit þó aldrei.
2 ummæli:
En skemmtileg og fræðandi færsla, það var nú þér líkt, eða eins og maður segir: þarna þekki ég þig sykurpúði!
Þegar maður fær svona hól þá veit maður ekkert hvað á að segja svo ég held bara áfram að glotta eins og kjáni ;o)
Skrifa ummæli