þriðjudagur, 2. maí 2006

Mord i NV

Titillinn er í anda spennubóka Dan Turélls en ástæðan er sú að hér hafa verið framin þrjú morð. Fyrsta líkið fannst við hjólaskúrinn hjá okkur og eins og frægt er orðið sparkaði ég í hana í myrkrinu. Þessi dúfa var fremur snyrtileg af dauðri dúfu að vera.

Eitthvað virðist morðinginn hafa færst í aukana því næst fundum við dauða dúfu í hjólaskúrnum hjá okkur með upptætta bringu og fiðrið allt úti um allt. Velktist hún svo um bakgarðinn meðan skjórinn plokkaði vænstu bitana af.

Nokkru síðar fundum við svo þriðju dauðu dúfuna í hjólaskýlinu og nú hafði morðinginn heldur betur sótt í sig veðrið. Dúfan var tættari en sú á undan og að auki hauslaus. Skjórinn sem við álítum meðsekan skildi ekki annað eftir en óskabeinið og fjaðrirnar.

Nú er nokkuð liðið frá þriðja morðinu og bíð ég spenntur átekta. Ef raðmorðinginn heldur sig við fyrra mynstur er ég viss um að næsta fórnarlamb verður annaðhvort ferhyrnt, erfðabreytt svín frá Jótlandi eða hefðbundin borgardúfa í blóma lífsins. Vandi er um slíkt að spá.

Engin ummæli: