Uppáhaldshluti vinnudagsins er þegar ég keyri út í Valbyparken til að tæma arfa og annað illgresi af palli bílsins. Það er eins og að stíga inn í aðra vídd, pása iðinn og asann í borginni og fá loksins þögn. Auk þess er allt svo fullkomið að mér líður yfirleitt eins og ég sé að keyra um í staðalmyndinni af Norðurlöndunum.
Til að byrja með eru það götuheitin. Til að komast að Valbyparken keyrir maður meðfram Mozartsvej með öllum sínum Mozartsbakaríum, Amadeus vertshúsum og Mozartssmurðbrauðsstofum. Hliðargöturnar eru síðan ekki af verri endanum: Beethovensvej, Schubertsvej, Wagnersvej og Straussvej.
Á Mozartsvej er alltaf sólskin og fólk gengur um eins og í handriti. Enginn fer t.d. yfir gangbraut án þess að líta til hægri og vinstri en það er í raun óþarft því flestir ökumenn stöðva fyrir gangandi vegfarendum.
Ef Mozarsvej er vin í eyðimörkinni þá er Valbyparken paradísin handan hornsins. Þegar maður er kominn upp í Valbyparken keyrir maður fram hjá ótrúlega sætum koloni have sem kallast Musikbyen og Havebyen Mozart. Þarna er stórt vatn umkringt trjám og litlir kútar standa á bakkanum með veiðistöng og eftirvæntingarsvip.
Við vatnið búa líka svanaforeldrar með sjö gráa, hálfstálpaða unga sína. Sama tillitsemin við gangandi vegfarendur er sýnd upp í Valbyparken eins og á Mozartsvej og því varð ég að stoppa í dag til að hleypa Hr. Svan og frú yfir, þau voru að fara að pikk-nikka með börnin.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli