Vinnudagurinn fór mestmegnis í að tína rusl og tæma ruslafötur. Á meðan ég stundaði iðju mína kom fólk a.m.k. tvisvar að máli við mig til að ræða það hvað aðrir væru miklir sóðar. Ég var svosum sammála en hins vegar fór fyrir brjóstið á mér að þessu fávísa fólki var líkt göfugar skepnur sem kallast svín.
Ég vil því nota tækifærið og leiðrétta nokkur leiðindamál og orðatiltæki sem notuð hafa verið til að niðurlægja þessi ágætu dýr. Margir tala um að svitna eins og svín þegar þeir svitna mikið. Svín hafa ekki svitakyrtla og svitna því ekki og er fullyrðingin því bull. Einnig er sóðalegu fólki líkt við svín. Enn á ný er bull á ferðinni því þau eru hin snyrtilegustu dýr, sofa t.d. á einum stað, éta á öðrum og gera þarfir sínar á þeim þriðja.
Eflaust eru einhverjir sem núna eru farnir að hugsa um þau veltandi sér í drullunni. Er það ekki sóðalegt? Nei það er gáfulegt, þetta er þeirra leið til að kæla sig á heitum dögum og drulla er köld og svalandi. Alveg er ég viss um að ef mannfólkið hefði ekki svitakyrtla væri búið að finna upp einhverja hvíta drullu með lavenderlykt til þess að klína á sig í miklum hita. Huh, miklu skárra!
Að lokum langar mig að deila því með ykkur að svín taka t.d. hundum fram í gáfum og slá mannapa út í tölvuleikjum. Þau búa yfir sterku minni og það er hægt að kenna þeim að stilla hitann í húsum sínum. Rannsóknir benda einnig til þess að þau hafi þroska á við a.m.k. þriggja ára mannsbarn. Að hugsa sér bara að fólk skuli láta alla þessa vitleysu útúr sér um þessi ágætu dýr.
Hérna eru áhugaverðar myndir af tveimur sérdeilis fallegum dýrategundum saman.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli