föstudagur, 27. október 2006

Horgubb

Nú er maður að skríða saman eftir önnur veikindi. Eftir stutta kraftasöfnun í kjölfar ólgusjávarveikindanna lagðist í undirritaðan bévítans hálsbólgufjandi. Óbermið dreifði sér svo út um allt höfuð og varð úr hið skemmtilegasta hauskvef.

Ekki fékk ég neinn hita en þreklítill var ég. Hef ég unnið á meininu með heitum böðum, tedrykkju, heimatilbúinni hvítlauksmixtúru og karríi. Rautt greip hefur einnig gefist ákaflega vel við bannsettum hóstanum.

Nú er komið að hinni vinsælu stjörnugjöf! Magapestin er án nokkurra tvímæla vinningshafinn í þessari keppni. Harkaleg, hröð, spennandi og það er henni til framdráttar að hvergi kom bráðkvedda nærri. Sérlega vönduð og áhrifarík, fær fyrir vikið fimm stjörnur af fimm mögulegum.

Kvefpestin var ekki eins þéttofin og var fléttan fremur óskýr. Það verður þó að segjast eins og er að hún fór hratt og vel af stað en úrvinnslan þynntist heldur þegar á leið. Kvefpestinni stendur helst fyrir þrifum ófrumleiki og hæg atburðarás.

Fyrir ofangreindar sakir hlýtur hún eina stjörnu af fimm mögulegum sem pest. Ófrumleiki og hæg atburðarás pestarinnar voru þó bætt upp af Þórbergi Þórðarsyni þar sem ég var fær um að lesa Bréf til Láru á meðan forynjan reið hér húsum. Heildareinkunn tímabilsins er því fimm stjörnur af fimm mögulegum og kann ég Þórbergi bestu þakkir fyrir.

Engin ummæli: