þriðjudagur, 31. október 2006

Mjölfiðlaathygli með meiru

Enn heldur blessuð meistararitgerðin mér upptekinni. Maður hefði haldið að það væri nóg að púla við skrif heilt sumar og þá væri maður frjáls ferða sinna. En ég má víst ekki sitja á nýrri þekkingu eins og ormur á gulli svo ég er ánægð ef ég fæ tækifæri til að kynna niðurstöður rannsóknarinnar.

Í þessum töluðu orðum er ég að leggja lokahönd á erindi sem ég held á morgun í Árnagarði, stofu 201, þar sem ég kynni meistaraverkefnið (sjá nánar hér). Allir velkomnir, hefst klukkan 12:15, stundvíslega. Eins gott að ég mæti ekki of seint!

Í laugardagsblaði Moggans var áhugaverð umfjöllun um innflytjendamál á Íslandi og þar var einmitt greint frá helstu niðurstöðum rannsóknarinnar. Og í kvöldfréttum Stöðvar 2 áðan var viðtal við mig um rannsóknina. Eins og fréttamanna er háttur var blásið upp það sem þótti mest krassandi en það vill bara svo vel til að viðmælandi minn vildi einmitt að það kæmist á annarra vitorð þessi mismunun sem Pólverjar verða stundum fyrir. Ef einhver vill kíkja á viðtalið bendi ég á vef Stöðvar 2 eða einfaldlega smellið hér.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég var nú búin að skrifa svaka pistil hérna að neðan, eftir að hafa hlustað á útvarpsviðtalið, en hann komst ekki til skila. Mér finnst náttúrulega bara stórskemmtilegt að þú skildir skrifa um úlla á Íslandi á meðan þú varst úlli í Danmörku. En þetta endurómar nú eitthvað að því sem maður hefur upplifað.

Til lukku með þetta og skemmtið ykkur vel í nýjum ævintýrum.

Nafnlaus sagði...

... sagði Fjólgerður

ásdís maría sagði...

Já, það má jafnvel færa rök fyrir því að maður eigi einna helst að skrifa um útlendinga þegar maður er sjálfur útlendingur, upp á aukinn skilning að gera. Óhjákvæmilegar þarf maður þá að vera í útlöndum, og það er svo ofsalega gott :0)