fimmtudagur, 5. október 2006

Kraká kvödd

Eftir fimm daga í Kraká er kominn ferðahugur í okkur og ætlum við að halda í vesturátt í kvöld. Þó er ekki þar með sagt að við séum komin með leið á Kraká, þvert á móti hefur áhugi okkur vaxið dag frá degi og erum við harðákveðin í því að sækja borgina heim aftur.

Af því sem við höfum prófað og getum mælt með er að skoða Wawel kastalann, rölta um kirkjugarðinn í Kasimierz, kíkja á mjólkurbar og kaupa einstaklega ódýran (og stundum jafnvel ógirnilegan) pólskan mat.

Annars er pólskur matur alveg þrælfínn og af því sem við höfum reynt er ommeletta með jarðarberjasultu, kartöflupönnukökur með sýrðum rjóma (placki ziemniaczane), pierogi með kotasælu, rauðrófusúpa og rauðrófusalat og sveppasúpa borin fram í brauði. Svo má ekki gleyma pólska bakkelsinu en af því er mikið úrval í bakaríum borgarinnar og obwarzanki sem eru bragðgóðar brauðkringur seldar út um allan bæ í litlum vögnum.

Af því sem við náðum ekki að gera er að smakka pierogi með bláberjasultu, hlusta á klezmer músík í gyðingahverfinu gamla, heimsækja Nowa Huta kommúnistaarfleifðina, kíkja inn í Maríukirkjuna og sækja klassíska tónleika. En það þýðir líka að nú höfum við fullgilda ástæðu til að koma aftur seinna.

Engin ummæli: