miðvikudagur, 4. október 2006

Tveir merkisstaðir

Í gær og í dag fórum við í stutta túra út fyrir borgina. Í bæði skiptin var það til að heimsækja merka staði sem vel að merkja eru á heimsminjalista UNESCO.

Í gær kíktum við í saltnámuna við Wieliczka en sú hefur verið starfrækt í 900 ár og er næstelsta náma Póllands. Það hljómar kannski ekki sérlega spennandi að heimsækja saltnámu en þegar ég segi að í saltnámunni sé að finna a.m.k. 60 kapellur með altari, styttum, gólfi, tröppum og ljósakrónum útskornu úr salti þá breytist það viðhorf vonandi. Saltnáman er mjög skemmtilegur staður til að heimsækja og ég get því hiklaust mælt með henni við þá sem hafa hugsað sér að kíkja til Kraká.

Í dag heimsóttum við bæinn Oswiecim en þar er að finna stærstu útrýmingarbúðir Þjóðverja úr seinni heimsstyrjöld. Við þekkjum bæinn betur undir heitinu sem Þjóðverjar gáfu bænum eftir hernám Póllands: Auschwitz. Við heimsóttum líka nærliggjandi Birkenau sem einnig gengur undir heitinu Auschwitz II.

Útrýmingarbúðirnar eru varðveittar til að mannkyn minnist þjáninga þeirra sem myrtir voru í seinni heimsstyrjöld. Það er áhrifaríkt að sjá timburskúrana sem stríðsfangar voru látnir hýrast í. Áhrifaríkast var þó að sjá gasklefa og brenniofna og alla munina sem teknir voru af fólki: ferðatöskur, skór, hárburstar og greiður, eldhúsáhöld og fatnaður og síðan nokkur tonn af mennsku hári.

Engin ummæli: