Kraká leggst alltaf betur og betur í okkur. Fyrir það fyrsta er einstaklega auðvelt að ferðast hér um, bærinn er lítill svo maður fer allt fótgangandi og það er nánast ómögulegt að villast í Gamla bæ þar sem allar götur vísa til Aðaltorgsins. Þá er bærinn einnnig einstaklega snyrtilegur og við höfum veitt því eftirtekt að ruslatunnur eru alls staðar, og þær eru notaðar.
Þá spillir ekki að hér er ódýrt að borða á veitingastöðum, úrvalið í matvörubúðum er miklu meira en við eigum að venjast frá Íslandi eða Danmörku og fatnaður í verslunum er mjög smekklegur. Þá eru borgarbúar upp til hópa mjög vel til fara, enn eitt sem við erum ekki vön frá Kaupmannahöfn. Í samanburði við Pólverja í Kraká eru Íslendingar og Danir eins og rónar til fara, ég sver það.
Það sem af er Krakádvöl okkar höfum við verið ansi afkastamikil. Við höfum náð að blanda saman afslöppun, skoðunarferðum og verslunarferðum. Við erum búin að rölta um Gamla bæ, slappa af á kaffihúsi, strolla um Planty og kíkja á kastalann Wawel sem kúrir við ánna Vistúlu. Þá erum við búin að borða eins og kóngar, bæði skiptin á staðnum Chimera við ul. Sw. Anny 3, við mælum með honum. Af pólskum mat erum við tvisvar búin að fá okkur sernik sem er pólsk ostakaka, hún er góð.
Auk alls þessa erum við búin að kaupa hvorki meira né minna en tvö útskriftardress fyrir skvísuna. Nú þarf ég bara að ákveða hvort þeirra ég vil nota. Það er þó seinni tíma vandamál, nú er ég í fríi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli