sunnudagur, 1. október 2006

Zapraszamy do Krakowa

Við erum stödd í hjarta Póllands um þessar mundir. Við flugum til Kraká snemma í morgun og erum því búin að vera hér í einn dag. Fram til þessa hefur reynsla okkar af borginni verið mjög góð. Sem betur fer eigum við þrjá heila daga eftir áður en við höldum héðan, það er nefnilega margt sem okkur langar að gera.

Kraká hefur um aldaraðir verið höfuðborg Póllands í menningarlegum, trúarlegum og félagslegum skilningi, þó Varsjá sé að sjálfsögðu sjálf höfuðborgin. Hér búa um 770 þúsund manns sem er þægileg stærð fyrir litlu Kaupmannahafnar-Íslendingana. Í þokkabót er miðbærinn einstaklega vel skipulagður. Kjarninn er Stare Miastro eða Gamli bær sem er umlukinn grænu svæði sem kallast Planty. Hjarta þessa kjarna er Rynek Glówny eða Aðalmarkaðstorgið sem á rætur að rekja aftur til miðalda og er stærsta sinnar tegundar í Evrópu.

Á miðju torginu er að finna gamla verslunarmiðstöð, Sukiennice eða Línhöllina, þar sem áður fóru fram viðskipti með klæði og fatnað. Á torginu stendur einnig Maríukirkjan, Kosciól Mariacki, en sú hefur tvo misháa turna. Sagan segir að tveir bræður hafi keppst um hvor gæti byggt hærri turn á kirkjuna. Þegar yngri bróðirinn varð að játa sig sigraðan af eldri bróður sínum náði hann hefndum með því að stinga hann til bana, og er hnífurinn víst geymdur á vísum stað innan kirkjunnar.

Önnur skemmtileg saga er á bak við lúðrablásturinn Hejnal sem heyra má úr hærri turni kirkjunnar á heila tímanum. Þá stingur út trompetinu turnvörður og spilar stefið Hejnal úr höfuðáttunum fjórum. Það áhugaverða er að stefið hættir í miðri nótu og segir sagan að á 12. öld hafi turnvörður nokkur, sem spilaði stefið til að vara við innrás Tatara, fengið ör í hálsinn í miðju stefi og síðan þá hafi það verið spilað á þann hátt.

En núna er sögustund lokið og ég ætla í háttinn til að vera til í slaginn í fyrramálið. Góðar stundir.

Engin ummæli: