sunnudagur, 5. nóvember 2006

Pollrólegur sunnudagur

Rétt eins og á laugardaginn voru orð þessa sunnudags rólegheit og aftur rólegheit. Við kíktum þó út fyrir hússins dyr, ólíkt gærdeginum sem var dagur bókaormsins.

Á Listasafni Íslands var hægt að frá fría leiðsögn með listfræðingi um sýninguna Málverkið eftir 1980. Þar sem ég hafði ekki heimsótt Listasafn Íslands fyrr var tími til kominn að gera bragarbót á og ekki var verra að sjá hvað listamenn samtíma Íslands eru að föndra við.

Að lokinni kynningu og rölti um Listasafnið gengum við út í kuldann en entumst ekki lengi og leituðum skjóls í Aðalbókasafninu. Þar flettum við í ýmsum bókum fram til lokunar og röltum þá yfir í Iðu til að skoða enn fleiri bækur. Þar skemmti ég mér við að glugga í enska þýðingu á Mýrinni og get fullyrt að hún er ekki síðri á þeirri tungu.

Við lukum þessari bæjarferð með viðkomu á Grænum kosti og Súfistanum í M&M. Á meðan Baldur og PG sökktu sér ofan í bækur um ketti (sem er að verða að einhverjum vana hjá þeim og er sannast sagna farið að valda mér smá hugarangri) las ég fyrstu kaflana af Wuthering Heights í nýrri þýðingu Silju Aðalsteinsdóttur. Ég varð að sitja á mér að kippa ekki eintaki með mér heim.

Engin ummæli: