miðvikudagur, 20. desember 2006

Magnað í Mumbai

Við erum komin til Indlands!

Mér finnst það sjálfri hálf ótrúlegt en svo lít ég í kringum mig og fæ það staðfest. Hér er heitt og rakt, mannmergðin mikil og áreitið líka, allir vilja selja manni eitthvað. Enn sem komið er höfum við þó aðeins séð tvær beljur á götunni en mér skilst að í Delhi séu þær fleiri en hér í Mumbai.

Við lentum í gærkvöld í Mumbai og tókum pre-paid taxa niður í bæinn. Umferðin hér er algjört brjálæði. Hér ægir saman ýmsum sortum af bifreiðum, bifhjólum, reiðhjólum, en líka strætisvagnar og fólk ýtandi kerrum á undan sér. Þrátt fyrir að stundum sé merkt fyrir akbrautum á götunum virða ökumenn það að vettugi og keyra svo þétt upp við hvorn annan að við á Íslandi myndum móðgast ef einhver legði bíl sínum svo nálægt í stæði.

Svo er svínað og flautað út í eitt, menn keyra óhikað á fullri ferð í átt að konu með barni og sem betur fer sveigir hún frá á síðustu stundu. Við lá að maður lokaði augunum á köflum. Við vegakantinn gat svo að líta allt heimilislausa fólkið. Í rökkrinu var auðvelt að koma auga á eldana sem loguðu í ólíkustu eldstæðum og við bjarmann frá bálinu sá maður börn sitja saman, borðandi, kjaftandi, sofandi.

Við vorum búin undir allt þetta en ekki að þurfa að leita að hóteli seint um kvöld eftir að bókunin sem við gerðum á flugvellinum reyndist, þegar til kastanna kom, vera loforð upp í ermina. Við enduðum í litlum kústaskáp ef svo má segja, Baldur gat varla staðið uppréttur og ég svaf lítið um nóttina af svalanum frá loftkælingunni! Skemmtilegasta reynslan var að baða sig: við þurftum að sitja á hækjum okkar og ausa yfir okkur vatni úr stórri fötu. Það besta var að vatnið var heitt og gott og við gátum skriðið upp í rúm, laus við ferðarykið.

Núna erum við á einhverju uppa-kaffihúsi og bíðum eftir að taki að kvölda. Þá ætlum við að finna okkur einhvern veitingastað til að nasla á (borðuðum bara súkkulaði og möndlur í kvöldmat í gær) og síðan tökum við næturlestina til Goa í kvöld. Á sínum tíma fannst okkur sniðugt að fá farrými með loftkælingu en af fenginni reynslu veit ég að mér verður kalt í nótt.

Engin ummæli: