þriðjudagur, 19. desember 2006

Í millibili

Við erum stödd í landinu Oman eins og stendur. Við lentum klukkan rúmlega átta í morgun en í raun var klukkan að skríða í þrjú að morgni hjá okkur skötuhjúum. Við áttum áfallalaust flug með Gulf Air og gott betur en það þar sem flugvélin var tiltölulega þægileg og við gátum sofið með nýju uppblásnu koddana okkar. Ef maður rumskaði gat maður síðan alltaf svæft sig við eina af bíómyndunum sem í boði voru.

En eins og áður sagði erum við í Oman og erum að bíða eftir tengifluginu til Mumbai sem fer seinna í dag. Hér er reyndar ekkert netkaffi að finna svo ég pára þetta í dagbók sem keypt var sérstaklega fyrir tilfelli sem þessi. Á flugvellinum í Oman er ekki mikið við að vera annað en skoða í verslanir og hlusta á jólalög spiluð á pan pipe.

Við eigum nokkrar ríölur, sem er gjaldmiðillinn hér í Oman, og við ætlum að losa okkur við þær áður en við höldum af landi brott. Fram til þessa höfum við rekist á kennsludisk í magadansi, myrru, útskorna úlfalda og lampann hans Aladdins. Ég held við látum þó frekar freistast í döðlu- og möndludeildinni.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Bestu jóla og nýárs hveðjur.
Afmælisóskir Ásdís.
P&V
Farið á Taj hótelið í Mumbai og fáið ykkur eftirmiðdags Te!