Það er ennþá myrkur yfir borginni og ljósin speglast í lygnum Kópavoginum. Það er varla sála á ferð en tvær mýslur eru komnar á stjá því þær eru á leið til Indlands.
Þessar mýs eiga að mæta í flug kl. 7:15 sem þýðir að það tekur því varla fyrir þær að sofa þessa síðustu nótt. Og ef einhver spyrði þær hvort þær hefðu eitthvað geta sofið fyrir spenningi gætu þær eiginlega ekki svarað því þar sem ekki reyndi neitt verulega á það. Þær minnast hins vegar varnarorða um að mæta aldrei ósofinn í próf og ef þetta ferðalag er ekki próf þá vita þær bara ekki hvað.
Ósofnar eða ekki þá eru þær tilbúnar í slaginn. Þær kvíða voðalega fyrir moskítoflugum og gríðarlegum hita, mengun og raka, mannmergð utan þeirra eigin skilnings og þess að vera án síns venjulega mýslutengslanets. Á sama tíma er það einmitt þessi reynsla sem þær leita í, eins og skrýtið og það er.
Mýslurnar verða, ef kallinn í tunglinu leyfir, komnar til Mumbai annað kvöld. Þær lofa að vera ofsalega varkárar, taka leigubíl beint inn á hótel og væflast ekki um stórborgina eftir sólsetur. Þær ætla líka að láta vita af sér við fyrsta tækifæri en fram að því má segja að engar fréttir séu góðar fréttir.
2 ummæli:
Góða ferð ;)
Takk fyrir goda kvedju, bestu kvedjur a moti til ykkar hjonakorna ;0)
Skrifa ummæli