fimmtudagur, 21. desember 2006

Palolem

Komum til Margao í Goa nálægt hádegi í dag, eftir langa en ljúfa ferð í næturlest, og byrjuðum strax að reyna að komast að því hvernig auðveldast væri að koma sér á Palolem strönd. Okkur til mikillar ánægju kom til okkar áströlsk stelpa og spurði hvort við værum á leið til Palolem, við kváðum svo vera. Reyndust hún kærasti hennar á sömu leið og voru að leita að einhverjum til að slá saman í leigara, heppilegt.

Bílferðin var praktísk í alla staði, kom okkur til Palolem meðan við yfirheyrðum Ástralina sem höfðu einmitt bakpokast um svipuð svæði og við stefnum á síðar í þessari ferð. Það var líka skemmtilegt að hitta vestrænt fólk á okkar reki.

Hér í Palolem leigðum við okkur svo sætan kofa innan um pálmatré á ströndinni, ljúft. Umhverfið er allt mun afslappaðra en Mumbai og maður sker sig ekki lengur eins brjálæðislega úr þar sem mikið er um evrópska ferðamenn. Ég veit eiginlega ekki hvar ég ætti að hefja dásemdarlýsinguna. Kókospálmar, blíður andvari, heiður himinn, sól, öldugjálfur, heitur sjór og fleiri og fleiri atriði sem lýsa draumaströnd.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hljomar ansi vel, gaman að thid skyldud rekast a thessa flokku-Astrali :)
-Andri