miðvikudagur, 14. febrúar 2007

Apar í rusli

Valentínusardagur! Í dag eigum við Ásdís 6 ára sambúðarafmæli og höfum kosið að verja því innandyra þar sem öfgamenn (Shiv Sena) hafa hótað að grýta og berja unga elskendur sem leiðast á þessum degi Djöfulsins (að þeirra mati). Dagurinn stangast víst eitthvað á við indverskar hefðir. Ég hélt reyndar að ofbeldi gerði það líka en þetta eru sennilega bara veikgeðja tækifærissinnar, hver hannar sitt eigið fangelsi.

GSM og Skype sáu okkur fyrir tengingu við umheiminn þar sem Ólöf amma og Kalli afi skæpuðu okkur og gáfu skýrslu af gangi mála heima auk þess að vara okkur við anti-Valentínusarmönnum. Einnig fengum við símtal frá Geira frænda í Chennai og hlökkum mjög til að heimsækja hann í byrjun mars.

Ekki nóg með símtölin heldur komu líka til okkar kærkomnir gestir og borðuðu áfenga afganga frá kvöldinu áður, apafjölskyldan fékk ananasafklippur í hádegismat. Ég stóðst náttúrulega ekki mátið og myndaði hana í bak og fyrir. Ekki vildu aparnir inn að þessu sinni, sennilega til að verða ekki stimplaðir sem frjálslyndar Valentínusarsleikjur, kapitalískir hippar eða eitthvað þaðan af verra.

1 ummæli:

Unknown sagði...

jahérna þetta er allsstaðar eins liðið hans sveins. Aparnir eru hins vegar til sóma.