Ekki voru sjálfspyntingar ofarlega á gátlista dagsins þrátt fyrir að Föstudagurinn langi stæði yfir. Í stað þeirra fórum við í 90 mínútna ayurvedískt heilnudd.
Við vorum leidd hvort í sitt herbergið og þegar þangað var komið var ég beðinn að fara úr hverri spjör. Til að gæta velsæmis batt nuddarinn utan um mig lendaskýlu, tók hana svo upp á milli fótanna á mér og girti í mittisstrenginn. Ég stóð því út á gólfi í einhverri blöndu af bómullarbleyju og g-streng. Hvað varð eiginlega um meint velsæmi?
Eftir þessa ágætu seremóníu settist ég á lágan koll og fékk hausnudd, var svo lagður á bekk og nuddaður út um allt: Andliti, búk og fótleggjum framan og aftan, lófum og fótum með smá rassskellingu í kaupbæti. Allt var þetta gert með svakalegu olíumagni sem fékk síðan nýtt hlutverk þegar ég var settur í gufubað og látinn svitna í gegnum olíuna. Það var æðislegt að komast í gufuna og finna hvernig olían og gufan unnu saman að aukinni slökun. Svo þerraði nuddarinn af mér svitann og olíuna, tók mig úr bleyjunni og sendi mig brosandi út.
Ég hef farið til margra nuddara um dagana en aldrei hef ég áður prófað þessa tegund nudds. Mér fannst þetta allt saman bráðskemmtilegt og naut þess mjög að fá nudd en ég verð samt að segja að ég er mun hrifnari af því sem samlandar mínir kalla slökunarnudd eða hinu víðfræga sænska íþróttanuddi.
2 ummæli:
Sælt veri fólkið.
Takk fyrir skemmtilega lesningu og flottar myndir. Viðburðarríkara en öll önnur blogg. Fær mann til að grenja af öfund og ævintýraþrá.
Þó svo ég skoði síðuna mun sjaldnar núna eftir að við fluttum heim og maður er farinn að vinna.
Kveðja Fjóla og co.
P.s. www.bleikidrekinn.blogspot.com eignaðist son í febrúar.
Gott að heyra frá þér stelpa, ég hef ekki geta haft samband því e-mailið sem ég er með frá þér er frá tkol.dk, það virkar víst ekki lengur.
Ég kannast við að grenja úr öfund og ævintýraþrá, þegar það var farið að vera daglegt brauð dreif ég mig til Indlands :o)
Annars vissi ég af bleika drekaunganum, ég fylgist með í laumi og hef gaman af, hehe.
Bestu kveðjur til fjölskyldunnar!
Skrifa ummæli