Þá er komið að seinni hluta færslunnar Góða fólkið í Indlandi.
Strax í flugvélinni á leið til Delhi hittum við mjög viðkunnalegan mann sem er fæddur og uppalinn í Kerala en hefur undanfarin sjö ár verið búsettur í Kanada með konu sinni og börnum. Þessi sami maður hjálpaði okkur þegar við vorum að skrá farangurinn okkar inn í vélina og síðan kom í ljós að við vorum sessunautar í vélinni. Það að hann skyldi tala kanadíska ensku og alltaf kalla okkur “guys” var mjög góð tilbreyting frá hinglish og því að vera kölluð sir og madam.
Í Agra kynntumst við hjólaléttivagnsstjórunum Lala og Rama. Það voru þeir sem létu okkur vita að frítt væri inn í Taj Mahal kvöldið sem við ætluðum út í smá rölt. Það voru líka þeir sem alltaf voru að bjóða okkur skoðunarferð um Agra. Þeir gerðu það hins vegar á svo ljúfan máta og brosmildan að það var skemmtilegra en hitt að þurfa að hrista þá af sér.
Þegar við fórum að kaupa okkur rútumiða frá Agra til Jaipur hittum við herra Pradeep Parashar. Við sátum og spjölluðum saman í tvo tíma eftir að hafa fest kaup á miðunum. Það kom í ljós að herra Deep eins og hann kallar sig vann á sínum yngri árum sem aðstoðarmaður mannfræðingsins Dr. Paul C. Winther og úr því samstarfi kom út þriggja binda verkið Panihar sem nefnt er eftir þorpinu sem rannsókn Winthers fór fram í.
Ekki nóg með það heldur kenndi herra Deep okkur ýmislegt áhugavert úr vedísku fræðunum en það sem helst stendur upp úr eru ráðleggingar um hvernig maður kemur sér úr döpru skapi yfir í gleðilegt skap:
1. Maður syngur
2. Maður dansar
3. Maður borðar góðan mat (góður er hér skilgreint út frá vedísku fræðunum en ekki persónulegum smekk hvers og eins)
Í Meherangarh virkinu í Jodhpur hittum við fyrir faglegasta og vingjarnlegasta starfsmann Indlands. Og hún stóð sig ekki bara vel í samanburði við aðra Indverja heldur var hún heimsklassastarfsmaður. Þar við við höfðum gleymt öllum skilríkjum á hótelinu gátum við ekki sett þau upp í tryggingu fyrir leiðarhljóðbók um virkið. Hún leyfði okkur hins vegar að setja gemmsana og nokkra rúpíuseðla upp í trygginguna og óskaði okkur svo frábærra ævintýra í virkinu: I wish you wonderful time as you embark upon your magnificent journey. Vá!
Í Jaisalmer veiktist ég í maganum fyrsta kvöldið. Við sátum á tíbetskum veitingastað og vorum búin að panta okkur þegar flökurleikinn tók yfir. Ég varð að sitja með höfuðið milli fótanna í tröppum veitingastaðarins, föl og hvít. Þjónninn stakk upp á lemon sóda, skrifaði niður nafnið á ayurvedíska magalyfinu Pudin Hara og sendi okkur heim með tvær límónur í farteskinu.
Elskulegi hótelstjórinn okkar í Amritsar, sem við höfðum daginn áður prúttað mikið við um verð á herberginu, skutlaði okkur svefndrukkinn og ringlaður á spítala þegar Baldur var veikur. Hann túlkaði milli okkar og læknisins, náði í lyfin og lagði síðan út fyrir öllu saman.
Hér í McLeod Ganj eru allir vinalegir og því svolítið erfiðara að sigta út skærustu blómin þegar blómahafið er svona fallegt :o) Það er madamman á Gakyi og allt hennar brosmilda starfsfólk, það er úbertöffarinn á Nick’s og sá röggsami á Nick’s sem við köllum okkar á milli býfluguna, það er Bir Singh á McLLo sem er þjónn á heimsmælikvarða, það er litli búddinn á Kokonor sem er vandvirkasta manneskja heims, það er Diggí á Jimmy’s sem er svo ræðin og hress og opin...
Ég veit varla hvar ég á að hætta en ég held ég láti þennan lista duga. En kannski einn í viðbót. Ég held nefnilega að það sé óhætt að fullyrða, þó ég hafi ekki beina reynslu af því sjálf, að Dalai Lama geti fengið að fljóta með í hópnum góða fólkið í N-Indlandi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli