Tveir af ferðafélögum mínum voru farnir að láta á sjá eftir stöðugan þvæling og mikla notkun. Þetta voru bakbokinn og gallabuxurnar. Gallabuxurnar hafa reyndar átt við gömul íþróttameiðsl að stríða um langt skeið þar sem þær eru orðnar ansi þunnar um hnakksvæðið eftir miklar hjólreiðar, þetta var ekki þeirra fyrsta innlögn.
Ég fór því með þetta tvennt til skraddara í gær og tók hann verkefnunum með brosi á vör. Hann rekur litla stofu í bárujárnsskúr hér rétt hjá og vinnur öll sín verk á handstigna saumavél sem virðist duga vel til verksins.
Rétt áðan sótti ég svo ferðafélagana og er nú heldur betur annað að sjá þá núna. Bakpokinn er eins og nýr en gallabuxurnar líkjast helst hátískuvarningi sem maður sér í búðum heima. Að neðan er mynd af gallabuxnaviðgerðinni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli