sunnudagur, 20. maí 2007

Morðsaga úr fjöllunum

Elskulegu lesendur, örvæntið ekki! Ég og Jamie komum báðir heilir úr göngunni í gær en á leiðinni sagði hann mér afar krassandi sögu úr nágrenninu. Hún byrjaði þannig að þegar við vorum komnir niður gilið og að ánni hér fyrir neðan benti Jamie upp eina hlíðina og sagði: Þarna er hótelið þar sem morðið var framið. Þetta sagði hann eins og um almenna vitneskju á borð við glímu Grettis við Glám væri að ræða. Ég hváði.

Þannig reyndist þá mál með vexti að nokkrum dögum áður en ég og lagskona mín komum til bæjarins var framið morð. Enginn skal halda að norðanmenn hér séu öðruvísi en annars staðar því sögunni fylgdi að vitanlega voru eingöngu utanbæjarmenn flæktir í málið.

Já og þá er sagan búin, neeeii djók. Fórnarlambið og morðingjar hennar, tveir ungir karlmenn, komu hingað frá fylkinu Punjab (öll indversk) og skráðu sig inn á hótel. Ekki stöldruðu karlarnir þó lengi og yfirgáfu hótelið fljótlega, kvenmannslausir og með lítinn farangur.

Eitthvað þótti hóteleiganda andrúmsloftið einkennilegt því hann ákvað að athuga hvort ekki væri allt með felldu í hinu nýleigða herbergi. Kannski heyrði hann eitthvað á borð við dynki eða óeðlilega háreysti, það fylgdi ekki sögunni. Hann bankar á dyrnar án þess að viðbragða verði vart úr herberginu. Hann bankaði meira en brá að lokum á það ráð að opna herbergið og blasti þá við honum nokkuð sem hann óraði sjálfsagt ekki fyrir og fáir vilja finna í sínum húsum.

Í herberginu blasti afhausaður kvenmannsbúkur við aumingja manninum, sami búkur og skömmu áður hafði borið höfuð og skráð sig inn á hótelið. Gera má ráð fyrir að aðkoman hafi verið frekar ömurleg því ef konan hefur verið lifandi þegar hún var hálshöggvin hlýtur blóðið að hafa spýst upp um alla veggi. Jafnvel þótt hún hafi mögulega verið dáin þegar hausinn var skilinn frá búknum gerir það upplifun hóteleigandans ekki skemmtilegri.

Farangur mannanna reyndist því vera höfuð konunnar og fannst það innpakkað í poka sem lá á veginum sem við búum við tveimur dögum síðar og er ég bara nokkuð ánægður með að hafa sloppið við að reka tærnar í eitthvað einkennilegt þungt rusl á veginum. Ekki fylgdi sögunni hvort ástæður morðsins væru einhverjar en ungu mennirnir voru víst að vinna fyrir konuna.

Að sögn Jamies telst málið upplýst því pokinn sem hausinn var settur í reyndist vera frá einhverri lítilli og sérhæfðri verslun í heimabæ þessara dularfullu gesta. Það reyndist því auðvelt að finna út hvaða viðskiptavinir hennar stóðu að ódæðisverkinu. Klókindi og morð fara víst ekki alltaf saman en ætli klókindi og það að vera utanbæjarmaður fari nokkurn tímann saman?

1 ummæli:

Unknown sagði...

Svokallað sakamálaívaf... skemmtilegt, sérstaklega eftir á!