Í dag átti ég stefnumót við Jamie vin minn og var gönguferð um fjöllin á döfinni. Þar sem við erum í Himalaya fjöllunum er svo sem hægt að segja að hvert sem ferðinni sé heitið þá er það alltaf gönguferð um fjöllin en það er önnur saga.
Þar sem Jamie hefur búið hér í tvö ár og er vanur göngumaður þekkir hann ýmsar leiðir hér í grenndinni og veit hvað er markvert að sjá. Leiðin sem hann valdi fyrir okkur reyndist gullfalleg og friðsæl, úr alfaraleið túrhesta og sölumanna.
Til að byrja með lá leiðin niður að á sem rennur í gegnum gil hér rétt fyrir neðan og þaðan upp á fjallið sem ég horfi alltaf á af svölunum á hótelinu. Á leið okkar hittum við fólk sem býr afskekkt frá skarkala heimsins, svolítið eins og tímaferðalag eða í það minnsta ferð í aðrar víddir. Fólkið tók okkur brosandi, sumir kinkuðu vinalega kolli, aðrir heilsuðu upp á Hindí: Namaste.
Tvisvar á leiðinni gengum við fram á pínulitla og afskekkta barnaskóla og það er alveg á hreinu að þessi börn taka ekki skólabílinn til að komast þangað, eina leiðin eru slóðar troðnir af sandölum, tám og klaufum. Þegar okkur bar að fyrri skólanum var drekkutíminn að byrja. Börnin gengu í litlum halarófum út úr skólanum og af skólalóðinni hvert með sína blikkskálina fulla af hrísgrjónum og linsubaunadali.
Áfram gengum við og náðum að lokum upp á toppinn, þeir eru margir hér um slóðir en þetta var okkar toppur. Við blasti útsýni yfir nærsveitir, önnur fjöll þar á meðal hæðina sem hótelið okkar Ásdísar stendur á. Þetta var sérdeilis fallegur dagur, heiðskýr og sólríkur svo skyggnið var mjög gott. Á andartökum sem þessu er ekki aðeins auðvelt að njóta þess að vera í núinu, það kemur algerlega að sjálfu sér.
Einhvers staðar segir að það sem fari upp komi aftur niður og það gerðum við en þegar við vorum komnir niður þurftum við að arka upp aftur því hótelið er, eins og áður segir, í enn einni hlíðinni. Ferðin tók nálægt sex klukkustundum í heildina að meðtöldum tveimur stuttum stoppum og fann ég til þægilegrar þreytu í lærum og kálfum þegar við settumst á veitingastað hér rétt hjá í ferðalok.
Enn einn ótvíræður kostur við að þekkja alvanan mann eins og Jamie er sá að hann veit sko hvar er hægt að fá eftirrétti sniðna að bragðlaukum sælkera. Eftir veitingastaðinn kíktum við á stað sem selur súkkulaðikökur sem eru heimsfrægar hér um slóðir. Ég keypti tvo bita, fór heim til Ásdísar og saman smjöttuðum við á góðgætinu en skildum þó ekkert í því hvers vegna ég keypti bara tvo bita.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli