Snemma í morgun settumst við á pallinn á Isuzu pikköpp til að bruna upp hlíðar Bokorfjalls, sem er þjóðgarður í suðurhluta Kambódíu. Vegurinn upp fjallið liggur í gegnum iðagrænan skóg sem fléttar sig upp allar hlíðarnar. Einhvern tímann í fyrndinni lögðu Frakkar þennan veg til að komast upp í lúxuslífið í lítilli en fallegri byggð þúsund metrum ofar nærliggjandi þorpum, með spilavíti, villum og mildu loftslagi. Í dag minnti vegurinn þó frekar á uppþornaðan árfarveg með hyljum og risahnullungum útum allar trissur.
Ekki vorum við einu farþegarnir, með okkur voru tveir Bretar og tveir Svisslendingar. Öllum þótti okkur mikið sport að sitja á pallinum og reyna eftir megni að forðast trjágreinar sem reglulega reyndu að löðrunga okkur. Eftir nokkra keyrslu fór þó nýjabrumið af harkalegu rassnuddinu og voru allir fegnir klukkutíma gönguferð í þægilegri rigningu til að kíkja á foss sem ég þekki því miður ekki nafnið á en fallegur var hann.
Næst á dagskrá var Svarta höllin sem á að hafa verið sumardvalarstaður konungsins eða staður sem hann leyfði góðum vinum sínum og opinberum gestum að nota í heimsóknum þeirra til Kambódíu. Höllin er löngu yfirgefin og ber ekki mikið yfir sér en útsýnið er fagurt. Nafngiftina fékk hún vegna svartrar viðarklæðningar sem útsjónasamt fólk hefur tekið sér til nytja en í staðinn hylur gullfallegur rauður mosi mikinn hluta af steinveggjunum. Náttúran er svo smekklegur arkítekt.
Síðasta áningarstaðnum var ég þó langtum spenntastur fyrir og má segja að hann hafi vegið þyngst á metunum þegar við ákváðum að taka á okkur þennan krók suðureftir: franski draugabærinn. Þegar okkur bar að garði skein sól í heiði og stöldruðum við hjá skógarverði til að njóta tófúkarrís með hrísgrjónum og bagettum, gott eftir gönguna. Eftir því sem leið á hádegisverðinn gerðist lágskýjað mjög og mátti sjá mistrið skríða á milli byggingana og færa vægast sagt magnaða dulúð yfir svæðið.
Tveir staðir urðu þó magnaðri en aðrir: Bokor Palace og kirkjan. Bokor Palace var spilavíti og hótel og gnæfði það yfir öðrum húsum bæjarins eins og heimili virðulegrar vampíru í góðri B-mynd. Við skoðuðum það í krók og kring og mátti sjá að ekki var sparað til verksins og hótelherbergin 33 hljóta að hafa verið hverju öðru glæsilegra á sínum tíma. Ekki skaðaði að í bakgarðinum voru þverhníptir klettar og geri ég ráð fyrir að nokkrir óheppnir spilarar hafi steypt sér tómhentir í skýjahafið. Þrátt fyrir magnað andrúmsloft lét Vincent Price ekki sjá sig, enda klukkan ekki einu sinni nálægt miðnætti.
Þess ber að geta að í Kambódíu tekur fólk drauga mjög alvarlega. Ég notaði orðið draugabær sem tilvísun í þennan bæ þegar ég var að spyrjast fyrir um staðinn áður en við fórum og var vinsamlega bent á að ríkisstjórnin passaði upp á að túristum væri ekki beint á staði þar sem reimt væri. Til að koma algerlega í veg fyrir draugavandræði var skilti í anddyri spilavítisins með skilaboðunum: Do not sleep here. Enn annað dæmi var að bílstjórinn okkar stoppaði þegar við vorum hálfnuð upp hlíðina til að brenna reykelsi á forfeðraaltari við veginn og færði þeim bananaknippi sem friðþægingu. Leiðsögumaðurinn lét okkur þá vita að hér réðu tígrar og draugar ríkjum.
Eftir yndislega stund á þessum fallega, rólega stað þar sem skýin dansa við yfirgefnar byggingar og strjúka augntóftir þeirra blíðlega lögðum við af stað til byggða á ný. Allt var gott um það að segja en fyrir rest heyrðist nú emjað og æjað þegar jeppinn skaust yfir stórgrýti eða ofan í holu. Mæli eindregið með þessari ævintýraferð fyrir ferðalanga sem vilja komast í gott loftslag. Oft á tíðum minnti það helst á góðan rigningardag í íslenskum júlí, ekki bara loftslagið heldur var landslagið oft skemmtilega kjarrskotið eftir því sem ofar dró. Ég get svo svarið það.
1 ummæli:
Mér leið helst eins og ég væri stödd í Wuthering Heights, svo dramatískt var landslagið. Svoleiðis sögusvið er ekki annað hægt en að tætla í fílur og mæla með við sem flesta. Ég get svo svarið það :o)
Skrifa ummæli