fimmtudagur, 19. júlí 2007

Í óspurðum ferðafréttum, II

Það er svo margt sem gleymist að nefna í okkar daglegu ferðasögu, en þá eru líka óspurðu ferðafréttirnar tilvaldar til þess að koma því að. Hér koma nokkrir fróðleiksmolar um Asíuferðalangana og lífið á “ródinu”.

Einhverra hluta vegna erum við skötuhjú enn með henna í hárinu sem við settum í forðum daga. Einhver plataði okkur allrækilega þar, sagði að liturinn færi úr eftir sex til átta vikur. Nú erum við eins og tveir litlir appelsínuhærðir kjánar sem ferðast saman og geta ekki losnað við hennalitinn, jafnvel þó liðnar séu 16 vikur.

Húðin á Baldri á ekki eins erfitt með að losa sig við lit, í hvert sinn sem hann fær smá slikju á sig byrjar hann að flagna. Kannski smá ýkjur, myndi Baldur segja, en samt, húðin er bókstaflega í tætlum þessa stundina.

Talandi um tætlur þá er nýjasta æðið okkar að tætla eitthvað í fílur. Til dæmis tætlum við Asíu í fílur en samt erum við enn ekki búin að fara á fílsbak. Skrýtið.

Af öðrum en okkur: Víetnamar voru alltaf snemma í því, yfirleitt komnir tíu mínútum á undan áætlun að sækja okkur. Eftir að hafa vanist Indlandi með sinni lágmarkshálftíma seinkun var erfitt að venjast þessu, hreinlega erfitt að trúa þessu.

Kambódíumenn eru nú að sýna og sanna að þeir séu ekkert síðri en Víetnamar, og svei mér þá að þeir gangi ekki of langt í þessum efnum. Í dag tókum við rútu og hún lagði þremur mínútum fyrr af stað en áætlað var. Þegar við vorum búin að keyra í þrjár mínútur kom upp að rútunni mótorhjól með farþega aftaná með tösku í fanginu, sá veifaði af öllum mætti í rútubílstjórann til að fá hann til að stöðva rútuna. Augljóslega farþegi sem missti af rútunni því hún lagði of snemma af stað. Hann var hins vegar ekkert að æsa sig yfir þessu svo ég ákvað að fara ekki í neitt uppnám.

Víetnamar eru alveg sjónvarpssjúkir og í öllum herbergjunum sem við gistum í þar á bæ var sjónvarpstæki til staðar með nokkru úrvali af stöðvum. Meira að segja í rútunum er sjónvarp og oftar en ekki er það í gangi. Það eru yfirleitt alltaf spiluð víetnömsk myndbönd nema á leiðinni frá Mekong, þá fengum við sígilda slagara frá 9. áratugnum eins og Careless whisper með Wham og Isla bonita með Madonnu. Við höfum líka fengið að hlusta á víetnamskt rapp og júrópopp. Í Kambódíu gætir meiri hindí áhrifa í tónlistinni, allavega ef eitthvað er að marka þau lög sem við hlustuðum á í rútunni í morgun.

Við kvöddum semsé Phnom Penh (eða Sean Penn eins og ég kýs að kalla hana) í morgun og erum núna í Kampot, smábæ sunnan af Phnom Penh. Þegar stutt var liðið á rútuferðina, en þó nóg til þess að við vorum komin út í sveitir og farin að hristast til í vagninum, sagði ég við Baldur: Jæja, þá er maður farinn að finna fyrir vondu vegunum. Baldur bendi mér þá blíðlega á að við værum á malbikuðum vegi. Ég held þetta sé gott dæmi um hve slæmir vegirnir hér eru og minnir helst á Indland, jafnvel verri vegir ef eitthvað er.

Það er fleira sem minnir á Indland hér í Kambódíu, nefnilega allt ruslið í bakgörðum og á víðavangi. Þá eru beljurnar svo horaðar og aðstæður fólks ósköp fátæklegar, margir búa til að mynda í bárujárnskofum við hrísgrjónaakra. Fleiri virðast þó búa í stultuhúsum, þau eru út um allt.

Eitt af því fyrsta sem við gerðum þegar við komum til Kampot var að finna okkur herbergi. Fundum hljóðlátt og rólegt hótel og festum okkur herbergi þar, fórum því næst í smá bæjarferð. Kíktum í litla smávöruverslun og skoðuðum okkur um. Sú verslun slær út þeirri sem við skoðuðum í Nha Trang þegar kemur að útstillingu varanna. Í einum rekka var áfenginu raðað, við hlið þess var þurrmjólk og barnaformúlur og í hillunni fyrir ofan þessar vörur voru bleyjur.

Heitasta slúðrið er þó þetta: Þegar við komum heim af veitingastaðnum í kvöld snarstönsuðum við og litum á hvort annað í forundran. Fyrir utan rólega og hálfdauða hótelið okkar var allt pakkað af jeppum og fólksbílum, af neðri hæðinu barst ómur af Asíubúum í karókí og við sáum ekki betur en staðurinn hefði þar að auki breyst í hóruhús! Ég er að tala um að gólfið í herberginu okkar titrar í þessum rituðu orðum. Við kunnum aldeilis að velja staðina.

Að lokum: hvað kallar maður öll sætu börnin, rúsínurnar, sem sitja stundum í hnapp út við vegkant og veifa þegar maður þýtur hjá í rútunni? Nú, rúsínupoka.

1 ummæli:

baldur sagði...

Smá ýkjur!? Smá? Ég meina'ða sko, þetta eru sko þokkalega mestu ýkjurnar, sko...

Bara svona FYI, ég er búinn að flagna en gang, for søren, á sjö mánuðum í asískum djúpsteikingarpotti.