þriðjudagur, 17. júlí 2007

Konungshöllin, árbakkinn og góða framtakið

Við byrjuðum þennan dag á því að heimsækja konungshöllina. Þar býr hinn umdeildi konungur Kambódíu, Sihamoni. Þar sem snyrtilegs klæðnaðar er krafist, og hlýrabolurinn minn stóðst ekki prófið, varð ég að taka hvítan bol á leigu fyrir 15 krónur.

Konungshöllin sjálf er skínandi falleg, gul með hallandi þaki og mjög svo skreyttum þakköntum, andlit Búdda snýr í höfuðáttirnar frá efsta punkti, tignarlegar súlur, glitrandi þakskífur, gullslegnar táknmyndir og sjöhausa snákar í styttulíki prýða höllina. Semsé mjög sjarmerandi arkitektúr.

Hallargarðurinn er einnig mjög fallegur og minnir helst á skrúðgarð. Þar er allt í blóma: grænar grasflatir teygja úr sér, nýsnyrtir runnar monta sig af rósunum og marglitu blómunum, tilklipptu trén minna helst á litla gorma, fiðrildi flögra allt um kring og fuglager hringsóla um háa turna. Þá standa glæsilegir ljósastaurar hnarreistir um allan garð og minna á Vínarborg á tímum Mozarts. Kambódía er skemmtileg blanda af búddisma og brahmanisma (hindúisma) og hallagarðurinn ber þess glögg merki, sér í lagi styttur garðarins sem sumar hverjar eru jafnvel ívið egypskar. Kyrrðin innan veggja hallarinnar er engu lík.

Í miðjum hallargarðinum stendur marmarahvít stúpa og steinsnar frá henni er að finna Silfur pagóduna sem er hlaðin fjársjóðum. Gólfið er úr fimm tonnum af silfri sem unnið hefur verið í fimm þúsund silfurflísar. Búddalíkneskin skipta hundruðum, mörg hver eru smá úr silfri, önnur eru stór úr dýrum marmara. Þau líkneski sem vekja mesta athygli eru emeraldgræni kristal Búddinn sem situr í hásæti sínu og mannhæðarhái Búddinn úr skíragulli (90 kg), skreyttur 2.086 demöntum, þeirra stærstur er einn 25 karata.

Hvítu skýin í bland við bláan himinn sem hægt og rólega breyttist yfir í þungskýjaðan himinn með gráum óveðurskýjum gáfu heimsókninni skemmtilegan blæ. Þegar tók að hellirigna urðum við að hlaupa í skjól og bíða af okkur dembuna í hallargarði konungs. Þegar loks stytti upp röltum við sem leið lá í átt að ánni Tonlé Sap. Í leiðinni skoðuðum við Þjóðminjasafnið að utan enda um einstaklega fallega byggingu að ræða, röltum því næst um árbakkann og fylgdumst með heimamönnum borða snigla með tannstönglum.

Við enduðum á því að borða á veitingastaðnum Friends sem er rekinn af frjálsum félagasamtökum. Allur ágóði veitingastaðarins rennur til samtakanna sem reka staðinn, á staðnum fer síðan fram þjálfun fyrir götubörn sem vilja verða kokkar og þjónar. Allt starfsfólk er því fyrrum götubörn sem stóðu áður fyrr í betli og voru mörg hver háð fíkniefnum en eru núna heilsteypt ungmenni sem útbúa frábæran mat, veita framúrskarandi þjónustu og reka besta veitingastaðinn í borginni.

Við fengum t.a.m. frábæran vanillu/hindberja hræring, dásamlega graskerssúpu með ferskum kóríander og hvítlaukskrútonum, sætar kartöflufranskar með karrýmajónesi, besta hummus Asíu borinn fram með kirsuberjatómötum og basilíkulaufi, kókoshnetu og chilí ís og allra, allra bestu brownie sem ég hef fengið, hlaðna kasjúhnetum, stökk að utan, mjúk að innan. Ef maður fær ekki trú á mannkynið af því að sjá svona framtak þá veit ég ekki hvað.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gaman að lesa bloggið ykkar. Ef Halldór Kiljan væri á lífi þá færi hrolur um hann vegna harðnandi samkeppni.Ég er búinn að ferðast um alla Asíu síðastliðna sex mánuði og hafa mjög gaman af. ógrynni af fróðleik ásamt lifandi frásögn og skemmtilegum myndum.
Buen viaje.Ásgeir...............

baldur sagði...

Kærar þakkir fyrir hólið og spænskukennsluna. Eitthvað held ég að Dóri yrði nú órólegur yfir stafsetningunni okkar!