þriðjudagur, 17. júlí 2007

Á landamærunum

Við tókum rútu frá Saigon í morgun til Phnom Penh, höfuðborgar Kambódíu. Við höfum áður farið landleiðina yfir landamæri, t.d. í Evrópu, en þetta var í fyrsta skipti í Asíureisunni sem við förum landleiðina milli landa og þar með yfir landamæri.

Það sem gerir landleiðina áhugaverða er ferlið sem maður fer í gegn til að komast úr einu landi og inn í annað. Þegar okkur bar að landamærunum í fullri rútu af spenntum útlendingum urðum við að dröslast með allan okkar farangur yfir í tollinn. Víetnamarnir yfirfóru síðan öll vegabréf og brottfararspjöld og þar sem ekkert okkar hafði dvalið framyfir þann tíma sem vegabréfsáritun okkar heimilaði gekk sú skoðun hnökralaust fyrir sig.

Aftur fórum við upp í rútu og keyrðum mjög stutta vegalengd, eða alla leið að hinum enda landamæranna, að hliði Kambódíumanna. Þar urðum við aftur að stíga út úr rútunni og að þessu sinni var vegabréfsskoðun sem fór frekar óformlega fram. Landamæravörðurinn stóð með búnka af vegabréfum í fanginu og las síðan nöfnin okkar upp hvert af öðru.

Þegar nafnið manns var lesið upp átti maður að gefa sig fram, landamæravörðurinn leit á mann til að sjá hvort maður passaði við myndina og ef svo var mátti maður fara aftur upp í rútu. Það fyndna við íslensku vegabréfin er að nöfnin okkar koma ekki fram í prentmáli á sömu síðu og myndin er, aðeins er um undirskrift að ræða. Þess vegna erum við alltaf að koma landamæravörðum og flugvallastarfsfólki í vanda þegar það lítur í vegabréfin og ófáir gera þau mistök að taka augnlitinn (sem er efst á vinstra horni) fyrir nafnið okkar.

Að þessu sinni leit kambódíski landamæravörðurinn á vegabréfið hans Baldurs, fann ekki það sem hann leitaði að, klóraði sér aðeins á hausnum, leit síðan upp og spurði: Brown? Þegar Baldur gaf sig fram og sagði honum að eftirnafnið hans væri í raun Jóhannesson varpaði landamæravörðurinn öndinni léttar og sagði: Það er betra. Brosti svo sínu blíðasta.

Eftir vegabréfsskoðunina Kambódíumegin og gegnumlýsingu á farangri héldum við aftur upp í rútu. Fararstjórarnir gengu á hópinn og tóku $25 af hverjum og einum fyrir að útvega okkur vegabréfsáritun. Á meðan þeir stóðu í því að fylla út pappíra fyrir okkur fór hópurinn á nærliggjandi veitingastað og fékk sér hádegismat á landamærunum. Að því loknu var okkur smalað inn í rútuna eina ferðina enn og vegabréfunum útbýtt. Að þessu sinni skörtuðu vegabréfin okkar þessari fínu vegabréfsáritun inn í Kingdom of Cambodia og með hana í farteskinu var okkur öllum frjálst að halda för okkar áfram inn í Kambódíu.

Restin af rútuferðinni var keyrsla um slæma vegi og fallegar sveitir og stutt ferjuferð. Við reyndum að nota tímann til að skipuleggja dvöl okkar í Phnom Penh en það var erfiðara en við höfðum gert okkur í hugarlund að merkja inn í ferðabókina þegar rútan kastaði manni til og frá í sætinu. Þá var betra að horfa út um gluggann og sjá drekkhlaðnar rútur með farþega ofan á þakinu og öll húsin á stultum.

Þegar við loks komumst til Phnom Penh seint og um síðir tókum við stefnuna á svæðið kringum stöðuvatnið Boeng Kak, nánar tiltekið götu 93 (nær engin götuheiti í Phnom Penh, aðeins númeraðar götur) og fundum þar hræódýra gistingu (4$). Reyndar er enginn vaskur inn á baði og við sturtum niður með því að ausa vatni úr fötu en því erum við nú vön frá Indlandi. Salernið er allavega ekki sitja-á-hækjum-sér gerðin.

Við höfðum lítið sem ekkert undirbúið Kambódíuferðina hvað snertir peningamál. Við áttum nokkuð hundruð ríkisdali í veskinu en létum vera að verða okkur úti um kambódískar ríölur. Um kvöldið þegar við fórum út að borða sáum við að það hefði líka verið hinn mesti óþarfi, hér er allt verð gefið upp í dölum, maður greiðir með þeim og fær skiptimyntina í dölum svo fremi að um sé að ræða einn dal eða meira. Allt undir einum dal er gefið til baka í ríölum. Meira að segja hraðbankarnir dæla út ríkisdölum. Kannski þess vegna sem allt er miklu dýrara hér en í Víetnam. Þegar ég hugsa hins vegar til Íslands veit ég að ekkert er dýrt hér í samanburði. Eins og sakir standa held ég þó að verðskyn okkar sé skaðað út árið.

Engin ummæli: