Þá eru vikurnar okkar þrjár í Víetnam á enda og nýr kafli að taka við. Við erum búin að hafast svo margt við hér í Víetnam að ég á erfitt með að trúa að við höfum aðeins verið hér í þrjár vikur.
Það sem stendur upp úr ferðinni um Víetnam:
Við tókum höfuðborgina Hanoi með trompi enda átti borgin mjög vel við okkur. Þar er aðvelt að ganga um og skoða en þurfi maður að leita lengra er fátt auðveldara en að fá sér xe om. Reyndar þarf alltaf að prútta um verð og setja á svið leikrit en að lokum kemst maður alltaf á áfangastað, til þess er leikurinn gerður.
Á Halong flóa sáum við ógrynni af glæsilegum klettamyndunum rísa úr hafi og í Ninh Binh sáum við sömu klettamyndunina rísa upp úr hrísgrjónaökrum. Þá voru sveitirnar í kringum Ninh Binh einstaklega fallegar og mótorhjólið okkar líka!
Hué, Hoi An, Nha Trang og Saigon voru pakkabæirnir í þeim skilningi að við nýttum okkur óhikað skoðunarferðir ferðaskrifstofanna. Náðum þannig að sjá keisaraarfleifðina í Hué, hindúaarfleiðina í Hoi An, kóralrifin í Nha Trang og Cu Chi göngin og Mekong fljótið við Saigon.
Víetnamar fá feitan plús í kladdann fyrir það hve auðvelt er að ferðast hér um. Allsstaðar er hægt að fá loftkældar rútur og ástand vega er fínt. Þá er hægt að fá bagettur, beljuost og jógúrt á hverju horni. DVD diskar eru mjög ódýrir, aðgangur að neti hefur nær undantekningalaust verið frír á hótelunum, úrval af þurrkuðum ávöxtum eins og papaya og stjörnuávexti er gott, maður getur fengið góða æfingu í frönsku af því að hlusta á sjónvarpið og á öllum hótelum eru inniskór í herbergjum. Ég veit samt ekki hvort það er sérstakur plús, það er í það minnsta ómótstæðilega sætt.
Svo skemmir ekki fyrir Víetnömum hve duglegir þeir eru að hrósa manni: En falleg eiginkona, þú ert svo heppinn! Eiginmaðurinn svona hávaxinn, haltu í hann, hann er góður. Ó, þú ert svo falleg, ég vil vera alveg eins og þú!
Nokkrir lokapunktar um Víetnam:
* Víetnamar borða út á götum og það á pínkulitlum kollum við pínkulítil borð
* Í Víetnam fékk ég æði fyrir núðlum í Hanoi og vorrúllum í Saigon
* Ég fékk ótrúlega góða þjálfun í að borða með prjónum, ber mig nú að eins og innfæddur sé á ferðinni
* Á grænmetisstöðum er hægt að fá svokallað gervikjöt sem er unnið úr tófú og sveppamassa. Ég hafði litla lyst á því en Baldur smakkaði gervikjúkling sem hann kallaði gúmmíönd. Þetta er mikið sport í Víetnam
* Við elskuðum Víetnam: fólkið frábært, náttúran glæsileg, maturinn gómsætur.
* Og síðast en ekki síst þá gaf Víetnam okkur leyfi til að nota frasann: “When I was in Nam...”
2 ummæli:
Sæl Ásdís og Baldur, það hefur verið gaman að fylgjast með ykkur í uppáhaldslandinu mínu fyrir utan Indland náttúrlega. Stórfjölskyldan er að leggja í hann til Indlands í fyrramálið og ef þið viljið fylgjast með okkur er þetta slóðin http://indlandsrokk.blogg.is/
Það hefur verið allt á miljón þannig að enn sem komið er bara ein færsla inni.
Bestu kveðjur
Guðrún Helga
Bestu þakkir fyrir tengilinn á bloggið ykkar, við komum til með að fylgjast spennt með ævintýrum ykkar enda ekki á hverjum degi sem fjölmenn, íslensk fjölskylda kíkir til Indlands!
Bestu ferðaóskir til ykkar allra og við biðjum að sjálfsögðu að heilsa öllum Indverjunum, þó einkum og sér í lagi þeim í Kerala :o)
Skrifa ummæli