Þá er enn ein bátsferðin að baki, að þessu sinni var siglt um Mekong fljótið risastóra. Mekong á upptök sín í Tíbet, rennur þaðan gegnum Myanmar, Tæland, Laos og Víetnam, þaðan út í sjó. Mekong státar af næstum því jafnfjölbreyttu lífríki og Amazon og þá er mikið sagt.
Við sigldum þvert yfir þriggja kílómetra breiða Mekong. Fljótið er brúnt og breitt og á því sigla stórir prammar og litlir spíttbátar. Einhver veginn tókst mér að fá hálfa Mekong í fangið, buslugangurinn var svo mikill við borðstokkinn þar sem ég sat. Þegar við vorum komin yfir á hinn bakkann skiptum við yfir í minni bát. Á honum gátum við síðan haldið förinni áfram og siglt inn um þrönga kanala. Þar er grænn gróður á báða bóga, sérstaklega kókoshnetutré og bananalauf.
Við áðum við eina bryggju og stigum á land til að heimsækja litla sælgætisverksmiðju. Okkur var sýnt hvernig kókoshnetusælgæti er unnið úr kókoshnetum og fengum meira að segja smá smakk, sem var svo gómsætt að við gerðum stórkaup. Gengum burtu frá sælgætisverskmiðjunni með drekkhlaðinn poka af kókoshnetukarmellum með jarðhnetum, sykruðum engifer og bananasælgæti með jarðhnetum og sesamfræjum.
Næst á dagskrá var kyrkislanga. Þeir sem vildu fengu að halda á kyrkislöngu og leyfa henni að vefjast um hálsinn. Að sjálfsögðu lét ég slag standa og sé ekki eftir því, kyrkislöngur eru magnaðar. Það er eins og þær séu ekkert nema vöðvar og maður finnur þá hnyklast í höndum sér. Ég hafði mjög gaman af kyrkislöngunni alveg þangað til hún fór að hringa halann utan um lærið á mér, vagga höfðinu til og beygja hálsinn í sikk-sakk. Þá skildu leiðir okkar slöngu sætu, hún hélt uppteknum hætti við að vefja sig utan um hálsa ókunnugra og ég fór í hádegismat áður en ég yrði sjálf að hádegismat.
Í seinni hluta ferðarinnar heimsóttum við býflugnabúgarð sem vinnur hunang, hunangsvín, blómafrjókorn og hunangssælgæti úr hunangi. Býflugurnar á býlinu eru mjög smáar en margar voru þær. Við enduðum Mekong siglinguna á ávaxtasnarli og smökkuðum þar pomelo í fyrsta sinn, stigum því næst upp í mjóa árabáta sem sigldu með okkur bakaleiðina gegnum kanala og báru okkur að lokum að bátnum okkar.
Það byrjaði ekki að rigna fyrr en við vorum komin upp í rútu og það rigndi eins og hellt væri úr fötu alla leiðina heim. Það þýddi að ég hafði eitthvað að gera í rútunni, nefnilega að fylgjast með vatnsskvettunum sem komu undan dekkjum rútunnar og sjá hvort þær lentu á einhverri vesalings sál á bifhjóli.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli