Það er merkilegt hvernig heimurinn virkar. Í gær sagði ég við Baldur: Þetta gengur ekki lengur, ég verð að fara að láta gera við sandalana mína. Þetta sagði ég eftir að hafa nær hrasað í n-ta skiptið vegna þess að sólarnir eru lausir og vill oft beyglast upp á þá. Lausi sólinn verður líka til þess að sandalarnir eru lausari á mér en ella sem gerir það að verkum að það beyglast enn auðveldar upp á þá. Semsé hringavitleysa hin mesta.
Ég sendi þessi ummæli út í alheiminn í gær, reyndar hélt ég bara að Baldur væri að hlusta en viti menn, í dag gerðust undur og stórmerki. Sem við sátum inn á veitingastað rétt við hótelið eftir góða ferð í Cu Chi göngin kemur upp að mér maður og tekur upp annan sandalann sem lá laus undir borðinu. No, no madame, see, segir hann og flettir upp illa förnum sólanum svo við lá að ég roðnaði af skömm. Síðan bauðst hann til að gera við skónna og sýndi mér límið sitt því til sönnunar. Við sömdum um að hann gerði við skónna fyrir $1 og á þeim kostakjörum endurheimti ég sandalana mína.
1 par leðursandalar í Kaupmannahöfn: 110 DKK
1 stykki viðgerð í Saigon: $1
Að ganga um á sandölunum eftir viðgerð og vita að umheimurinn hugsar svona vel um mig: Ómetanlegt.
2 ummæli:
Og lífið þarf ekkert VISA
Og hvað þá MasterCard!
Skrifa ummæli