Fyrsti og eini dagskrárliður þessa ágæta dags var heimsókn í hin víðfrægu Cu Chi göng. Göngin voru u.þ.b. 250 kílómetrar þegar þau voru hvað lengst og voru grafin af víetnömsku handafli. Þróun gangnanna hófst einhvern tímann á tímum síðari heimstyrjaldar og voru þau í stöðugri byggingu og hönnun þar til Víetnamstríðinu lauk þrjátíu árum síðar. Í þessum heimshluta heitir þetta fræga stríð vitanlega Ameríkustríðið.
Fólkið sem bjó í göngunum er betur þekkt sem Viet Cong, og var hlynnt kommúnistunum í norðri. Þarna bjó það um árabil og stundum liðu vikur á milli þess sem hægt var að komast út undir bert loft. Þarna lifði fólk einfaldlega sínu lífi í leyni frá óvininum sem fyrst var franskur og síðar amerískur. Gangnalíf er hins vegar ekki alveg eins og það er ofanjarðar og einkum og sér í lagi ekki þegar einhverjir brjálæðingar drita B-52 sprengjum í tíma og ótíma yfir allt svæðið.
Þegar sprengja fellur á jörðina myndast höggbylgja og sé maður í nálægum göngum getur höggbylgjan hæglega orðið banvæn. Þess vegna var hvorki hægt að sitja í stólum né leggjast til svefns á gólfinu. Einhvern tímann þurfti þetta fólk samt að leggja sig eða setjast og voru hengirúm notuð til þess. Þannig að í stað að þeytast með banvænni höggbylgju yfir móðuna miklu dinglaði hengirúmið bara fram og til baka.
Leiðsögumaðurinn okkar var ákaflega litríkur karakter og kunni margar skemmtilegar sögur enda hafði hann unnið sem túlkur fyrir Ameríkana í stríðinu. Hann sagðist líka kunna svör við öllum þeim spurningum sem upp kynnu að koma. Yfirleitt fékk hann nokkrar spurningar við hverja sögu og þar af helming frá sjálfum sér með orðunum I have a question og meira að segja rétti upp hönd og allt. Ef einhver spurði einfaldrar spurningar eins og why eða how var viðkvæðið jafnan Very good question eins og þarna hefði velígrunduð og þrældjúp spurning verið lögð fram. Góður leiðsögumaður.
Það fyrsta sem hann sýndi okkur var hola ofan í jörðina, engin venjuleg hola. Þetta var einn margra leyniinnganga í göngin og það besta var að við fengum að prófa. Þessi inngangur var ágætis forsmekkur af þeim lúxus sem göngin höfðu upp á að bjóða því svo þröngur var hann að ekki lögðu allir í að prófa og einhverjir þurftu hjálp til að komast upp úr.
Á göngunni um svæðið sáum við hve afburðaslyngir víetnömsku hermennirnir voru í hinni ýmsu hertækni, göngin sjálf reyndar gott dæmi um þá snilld. Gamaldags veiðigildrur fengu t.d. það nýja hlutverk að veiða hættuleg rándýr úr vestri. Sumar gildranna voru hannaðar með það í huga að drepa og var ekki nokkur vandi að þekkja þær frá þeim sem hannaðar voru til að ná föngum. Oftar en ekki gegndi oddhvass, tálgaður bambus stóru hlutverki.
Enn annað dæmi um kænsku voru sandalar sem hægt var að fara í bæði á hinn hefðbundna hátt og á þann óvenjulega hátt að hælarnir sneru fram. Þessir sandalar voru notaðir til að búa til ruglandi slóðir fyrir Bandaríkjamenn til að rekja. Víetnamar á þessu svæði notuðu líka stundum óhefðbundin vopn eins og t.d. jarðsprengjur til að granda þyrlum. Ha? Það var gert þannig að priki var stungið ofan á jarðsprengjuna og ofan á það eitthvað sem tæki í sig vind, hálfgerðir þyrluspaðar. Þvínæst var klifrað upp í tré og sprengjunni komið þannig fyrir að ekki þurfti meiri hreyfingu á loftið en eftirlitsþyrla í lágflugi myndi valda.
Eftir nokkra göngu um svæðið og heilmikla fræðslu týndi ég hópnum þegar ég ásamt tveimur af samferðarkonum stoppaði til að taka mynd af einum sprengjugígnum. Ég arkaði rösklega af stað en hvergi sá ég hópinn og benti einn starfsmaður mér á að fara niður í nærliggjandi göng. Stemningin var rafmögnuð, ég tvísté en tók svo á mig rögg og stefndi í humátt að gangnamunnanum. Önnur af konunum kallar á eftir mér eins og í alvöru stríðsmynd: I’m coming with you! Hin konan hélt leitinni áfram ofanjarðar.
Þegar niður í göngin var komið sá ég hvorki tangur né tetur af hópnum og dúndraði í gegnum þröng göngin á sérdeilis hröðum en vitanlega tignarlegum gæsagangi. Það má segja að þetta hafi verið raunsannasta upplifun af stemningunni í þessum göngum sem ég kærði mig um. Í göngunum var kolniðamyrkur, hiti og raki. Eftir þessar hremmingar fundum við hópinn sem beið í óþreyju við annan gangnainngang ásamt leiðsögumanninum góða.
Í þetta sinn gafst tími til að taka upp vasaljós og var ég sendur inn manna fyrstur, enda orðinn veteran. Sá ég þá nokkuð sem ég hafði ekki séð í fyrri göngunum vegna skorts á ljósi: leðurblökur. Þessi kríli héngu í loftinu, sem notabene er metra frá gólfinu, og til að forðast að vekja þær með því að reka hausinn eða bakið í þær brá ég á að vekja þær með því að blása undurblítt á þær og sendi þær fljúgandi út í dagsbirtuna.
Heimsóknin í þessi göng var æðisleg og mælum við með þeim við alla. Reglulegir skothvellir og vélbyssuhríðir juku á stemninguna og héldum að þetta væru upptökur spilaðar í þeim tilgangi en komumst svo að því að gestum er boðið að prófa AK-47 riffla og einhverjar aðrar svakabyssur gegn vægu gjaldi. Skothvellirnir voru semsé ekta.
2 ummæli:
Þetta slær út kaldastríðsneðanjarðarkjarnorkubyrginu sem ég skoðaði í jarðtæknikúrs í DTU. Eitt af fáum top secret stöðum dana, var opinberað árið 2000. Það var sko massa Bond-fílingur að koma þangað.
Kveðja Fjóla
Úllalla, top secret hljómar nú alltaf áhugavert, ekki satt?
Get ekki sagt að það hafi beint verið Bond-fílingur hjá okkur í Cu Chi göngunum, en hergínurnar á víð og dreif og skothvellirnir gáfu svæðinu vissulega Rambo-fíling hinn mesta.
Skrifa ummæli