laugardagur, 14. júlí 2007

Föstudagurinn þrettándi í Saigon

Við eyddum föstudeginum þrettánda í Saigon að þessu sinni. Þar með erum við búin að þræða strandlengju Víetnam og koma okkur frá Hanoi til Saigon. Reyndar heitir Saigon nú til dags Ho Chi Minh en mér þykir Saigon bæði fallegra og þjálla.

Við komum til borgarinnar eldsnemma í morgun en það skipti engu máli því allir voru löngu komnir á fætur að því er virtist og farnir að æfa í almenningsgörðunum. Við fundum herbergi á aðalhótelgötu borgarinnar (Minihotel Alley) og það á tveimur hæðum! Á efri hæðinni eru tvö rúm, sjónvarp, loftkæling og ísskápur, á þeirri neðri er hjónarúm, baðherbergi og vifta.

Eftir stutta hvíld lögðum við á ráðin um hvað skyldi gera þennan tiltekna happadag. Leituðum uppi grænmetisstað og fengum okkur bröns: ferskar vorrúllur, núðlur og tófú. Gengum gegnum mjóan almenningsgarð sem er í laginu eins og blýantur, gengum eftir það gegnum Ben Thanh markaðinn þar sem við sáum m.a. þurrkaðar rækjur, útskorna ávexti, ferska heila og baunir í bala.

Leiðin lá næst í Forsetahöllina sem Víetnamar kalla Sjálfstæðishöllina. Sagan á bak við þessa tilteknu höll tengist stríðinu milli norður og suður Víetnam, þaðan voru gefnar skipanir um að Saigon skyldi gefast upp fyrir fylgissmönnum Ho Chi Minh. Því miður áttum við í stökustu vandræðum með að skilja leiðsögumann okkar um safnið og gátum þar með ekki smattað sem skyldi á öllum upplýsingunum. Við komumst samt sem áður að því að forsetinn var ávallt með þyrlu til reiðu ef hann þyrfti að leggja á flótta. Svo fannst mér líka áhugavert að sjá uppstoppaðan hlébarða inn á skrifstofu hans og fílsfætur í garðinum.

Frá Forsetahöllinni röltum við yfir að Stríðsglæpasafninu og keyptum okkur á leiðinni sitthvora kókoshnetuna á sitthvoru verðinu. Á stríðsglæpasafninu fræddumst við um stríð norður Víetnama við suður Víetnama og stuðningsmenn þeirra, Bandaríkjamenn, Ástrali, Tælendinga, Suður Kóreumenn og Nýja Sjálendinga. Það var óhuggulegt að sjá hve margt minnti á stríðsrekstur Seinni heimsstyrjaldarinnar, t.a.m. stóðu Bandaríkjamenn í miklum efnahernaði og dreifðu gríðarlegu magni af agent orange yfir akra og þorp. Þrátt fyrir allar óhuggulegu myndirnar og vansköpuðu fóstrin tvö sem geymd eru í krukkum veit ég fyrir víst að það sem sýnt er á þessu safni er aðeins toppurinn á ísjakanum. Hvernig getur mannskepnan verið svona vitlaus?

Þegar safnaferðinni lauk áttum við frítíma þar sem við höfðum sinnt öllum erindum dagsins. Þeim frítíma vörðum við vel á veitingastaðnum Original Bodhi Tree þar sem við pöntuðum alþjólegt hlaðborð: mexíkóska búrrítu, kínverskar vorrúllur, indverskt karrý með chapati og víetnamskar núðlur.

Eina óhappið sem átti sér stað þennan föstudaginn þrettánda reyndist vera nokkurs konar lán í óláni. Á safninu týndum við dýrmætu Lonely Planet ferðabókinni okkar en ótrúlegt en satt þá fundum við hana aftur. Og nú kunnum við svo miklu betur að meta blessaða bókina. Það kalla ég heppni.

3 ummæli:

Unknown sagði...

Ég kemst alltaf í svo gott skap við að lesa ferðasöguna ykkar :-) Þetta er frábær lesning.

Nafnlaus sagði...

Það er SATT þetta er frábær ferðasaga og ætti að koma út sem jólabók
Stjáni

ásdís maría sagði...

Ó, við roðnum upp í hársrætur af öllu þessu hóli!

Frábært að heyra hvað þið hafið gaman af að lesa ferðasöguna, við höfum nú svolítið gaman af því að skrifa hana :o) Ekki verra ef hún fengi að taka þátt í jólabókaflóðinu!