Það er búið að vera gaman hjá okkur í Nha Trang. Í gær fundum við litla verslun sem selur aðallega áfengi, snakk og sælgæti. Þarna var reyndar hægt að kaupa mjólk frá Tasmaníu en þar með er upptalið þær vörur sem innihéldu einhverja næringu. Þá var vörunum stillt upp á einstaklega ósmekklegan hátt, að mínu mati ætti whisky, vodka og konjak ekki að vera við hlið snyrtivaranna og snyrtivörurnar ekki að vera við hlið sælgætisins.
Það eru ekki bara verslanirnar sem fá okkur til að brosa, fólkið er frábært líka. Fyrr í dag gengum við framhjá gömlum kalli sem rekur rakarastofu út á stétt. Eina sem gefur til kynna að þarna sé rakarastofa á ferðinni er rakarastóllinn og afskorna hárið allt um kring. Í dag þegar við gengum framhjá honum fór hann að kalla á eftir Baldri en þar sem við erum svo ryðguð í víetnömskunni náðum við því ekki alveg. Við spekúleruðum þó helling og komumst að þeirri niðurstöðu að líklegast hefur hann verið að hrópa: Þú þarft að fara að láta raka þig, strákskott!
Sem betur fer sá hann ekki hárprútt höfuð strákskottsins, hann hefði heimtað klippingu líka. Ekki það að Baldur sé ekki meðvitaður um hve hárprúður hann er um þessar mundir, eins og hann orðaði það sjálfur þarf hann alltaf að skella húfu á höfuðið eftir sturtu svo hann komi ekki til með að líta út eins og Nancy Reagan. Það sem gerist hins vegar þegar hann setur húfuna á kollinn er að hárið við eyrun stendur út fyrir, stílbrot sem við köllum rebbaeyru.
Við höldum för okkar áfram í kvöld, enn ein næturrútuferð framundan. Hver veit nema við endurtökum leikinn frá gærkvöldi áður en við leggjum í'ann, þ.e. fá okkur grænt salat og ítalska flatböku á Good Morning Vietnam og jógúrt í eftirrétt á Café des Amis. Ég er þó nokkuð viss um að Baldur fái sér ekki víetnamskt kaffi í bráð, það fannst honum nóg að gera í morgun.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli