miðvikudagur, 11. júlí 2007

Sólbrennd á bakinu

Það mætti ljúga því að mér að ég væri ogguponku sólbrennd á bakinu eftir snorklævintýri gærdagsins. Hvað Baldur snertir get ég frætt ykkur á því að hann hvarf seinnipartinn í gær en í hans stað kom sætur karfi sem elti mig á röndunum. Það er sannarlega ekki tekið út með sældinni að vera í fríi...

Með tilliti til ástandsins á sumum okkar voru allar sólbaðs- og strandferðir snarlega afskrifaðar og við urðum að finna okkur eitthvað annað til dundurs. Þetta annað reyndist vera hangs á ískaffiteríu sem býr til dýrindis bananasplitt. Það sem ég tel að geri gæfumuninn eru muldu jarðhneturnar og kókoshnetuísinn, namm.

Við, eða öllu heldur ég, höfðum einnig nokkuð gaman af dramaleikritinu sem öllum að óvörum hóf göngu sína hér í næsta húsi. Þannig var að meðan ég sat við tölvuna niðri í anddyri hótelsins tóku að berast köll og hróp úr skrifstofu í næsta húsi. Thu, sú sem talar ensku hér á hótelinu, dró mig út til að fylgjast með og túlkaði jafnóðum fyrir mér hvað væri að gerast. Svo var málum háttað að eiginkona, systir hennar og sonur voru stödd fyrir utan skrifstofuna þar sem eiginmaðurinn vann. Mágkonan ásakaði hann um að eiga viðhald á skrifstofunni, sagði hann ekki lengur vera mág sinn og hótaði að drepa hann á hverri stundu. Þá heimtuðu þær að sjá viðhaldið sem þær töldu hann fela í einu herbergja skrifstofunnar.

Að sjálfsögðu var múgur og margmenni að fylgjast með þessu drama og að sjálfsögðu kom lögreglan á svæðið áður en langt um leið. Og að sjálfsögðu vildi löggan taka skýrslu af gerendum og ein þeirra bannaði konunni vinsamlegast að drepa mág sinn. Dramað endaði á mjög dramatískan máta: meinta viðhaldið kom hágrátandi fram í dyragættina og var reidd heim af samstarfsmanni.

Víetnamarnir héldu áfram að slúðra sín á milli í smá tíma og þannig komst ég m.a. að því að meinta viðhaldið ætti kærasta og þar með gat enginn skilið hvort hún væri í raun að halda við skrifstofublókina eða ekki. Fljótlega eftir þetta fór áhorfendahópurinn þó að þynnast og ég ákvað að láta mig hverfa, fór upp að segja Baldri frá heitasta slúðrinu úr hverfinu.

Engin ummæli: