miðvikudagur, 11. júlí 2007

Bátsferð út í eyjarnar

Við skemmtum okkur þvílíkt vel í dag. Við fórum nefnilega í bátsferð á partýbát um Suður-Kínahaf og það getur ekki verið annað en gaman.

Við vorum sótt á hótelið klukkan hálf níu í morgun og brunaði full rúta af Víetnömum, Tævönum og hinum og þessum Vesturlandabúanum niður að bryggju. Þar gengum við um borð í partýbátinn. Þegar sjálft partýið hófst runnu hins vegar á okkur tvær grímur því tónlistin var júrópopp af verstu sort. Það var reyndar svolítið fyndið þegar leiðsögumaðurinn tók Titanic lagið My Heart Will Go On.

Eftir dágóða siglingu um hafsflötinn var kominn tími til að snorkla. Og ég hef aldrei á ævinni snorklað! Það þurfti að kalla til skynsemdarröddina til að halda mér ofan í vatninu: Nei, þú ert ekki að drukkna, mundu að anda í gegnum pípuna í munninum, auðvitað kemur saltvatn upp í nefið ef þú andar með því...

Loks þegar ég var komin upp á lagið með að snorkla sá ég sebrafiska og pínkulitla fiska, synti kringum kóralrif (geggjað) og gerði mitt besta til að forðast marglytturnar, held samt að einni hafi tekist að klípa mig í ristina.

Næst á dagskrá var hádegisverður upp á dekki. Í boði var steikt svínakjöt og vorrúllur með vafasömu innihaldi. Við vorum svo heppin að hafa pantað grænmetisfæði og fengum velútlátinn tófúrétt í bland við franskar kartöflur, skondin blanda.

Eftir hádegismat synti leiðsögumaðurinn út í sjó með rauðvínsflöskur og ananas, síðan var björgunarhringjum hent til hans og þar með var kominn svokallaður fljótandi bar. Þeir sem þorðu stukku af dekkinu en aðrir klifruðu niður á neðra þilfar og smokruðu sér þaðan ofan í vatnið. Ananas ofan í sjó er alveg ágætissnarl.

Restin af deginum fór í að heimsækja Tam eyju og Mun eyju, á annarri hvorri þeirra var áð og margir lögðust í sólbað, við hins vegar dreyptum á íste í öruggri fjarlægð frá sólinni. Ótrúlegt en satt þá var ávaxtateiti á partýbátnum síðdegis sem var kjörin leið til að endurhlaða sig af vítamínum og steinefnum og sætum safanum. Í boði voru ávextir sem allir þekkja eins og bananar, ananas og vatnsmelónur en síðan voru einnig sérkennileg aldin á boðstólum eins og rambútan, langsat og fleiri sem ég kann ekki að nefna.

Seinasti dagskráliður var heimsókn í sædýrasafnið þar sem við sáum fleiri kóralrif og gott sýnishorn af dýraríkinu þar. Litadýrðin er ótrúleg og við sáum nokkra sem líktust Nemo og félögum bara miklu flottari.

Myndir af deginum eru komnar á netið: Hér!

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ohhh,hann Baldur er svo sæætttuuur með þessi sundgleraugu. Hann er svo mikill túrhestur með þau.
Sólarkveðjur geiriiiiiiiiiiiiii

Nafnlaus sagði...

Mikið er gaman að geta fylgst svona vel með ferð ykkar á þessum framandi slóðum, þökk sé þessum dagbókarskrifum, og frábært að fá allar þessar myndir með gagnorðum og hnyttnum skýringatextum. Gott að sjá hvað þið lítið vel út þrátt fyrir langar og strangar rútuferðir. Með tilliti til næstu bókunar vona ég að þið farið varlega í hitabeltissólinni.
Góða ferð áfram!

Pétur afi

ásdís maría sagði...

Baldur er einstakur með þessi gleraugu, svo einfalt er það :o)

Gaman að heyra að myndir og færslur falli í góðan jarðveg. Varðandi sólina þá er það eins og málshátturinn segir: Brennt barn notar sólarvörn!

Takk fyrir góðar kveðjur og skemmtileg ummæli, við tætlum þau í fílur :o)