Við komum í morgun til Nha Trang og erum þar með komin í suðurhluta Víetnam. Ólíkt síðustu næturrútuferð náðum við að sofa að einhverju ráði þessa nóttina. Eina sem truflaði svefninn voru stoppin, þá eru ljósin nefnilega kveikt og allir ryðjast út. Það var í sjálfu sér merkilegt að fólk skyldi komast út úr rútunni, sessunautur okkar á vinstri hönd maulaði rauð fræ framan af ferðinni og henti hisminu á gólf rútunnar svo veglegur hraukur var farinn að myndast.
Besta stoppið er alltaf það fyrsta, þá fær maður sér bagettu með La vache qui ri, ommelettu og chilísósu, prúttar um banana og fer svo saddur og sæll að lúlla í sinn haus.
Við stigum úr rútunni rétt upp úr sex í morgun, komin til Nha Trang. Að þessu sinni tókum við fyrsta herberginu sem okkur bauðst, sem er óvanalegt því venjulega kíkjum við á nokkra staði. Þegar manni býðst hins vegar rúmt og snyrtilegt herbergi á $6 þarf ekki að leita lengra. Og ekki skemmir að herbergið er eins og skál af blönduðum rjómaís: súkkulaðiís í loftinu, vanilluís í köntum og jarðarberjaís á veggjunum sjálfum.
Í stað þess að byrja daginn á því að leggjast til svefns vorum við mætt á ströndina upp úr hálf átta. Við héldum að það væri sniðugt að taka út strandlengjuna meðan morgunsvalans nyti enn við en þar misreiknuðum við okkur lítillega, klukkan hálf átta að morgni en orðið óbærilega heitt í Víetnam. Við vorum því fljót að þefa uppi gott skjól sem að þessu sinni reyndist vera Café des Amis og þar fengum við okkur síðbúinn morgunverð.
Við erum ekki búin að ákveða hvað við ætlum að gera en við fréttum af súpermarkaði í nágrenninu, bókabúðir meðfram ströndinni selja notaðar bækur og svo er hægt að bóka sig í bátsferð út í eyjarnar. Núna langar okkur hins vegar helst að leggja okkur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli