sunnudagur, 8. júlí 2007

Sonur minn vísundurinn

Önnur skoðunarferð! Í dag fórum við í skoðunarferð um rústir Hindúahofa í My Son. Síðla á fjórðu öld varð staðurinn að mikilli trúarmiðstöð fyrir Cham ættbálkinn og var ekki fullkláruð með öllum sínum turnum og hofum fyrr en á þrettándu öld. Cham-fólkið lagði mikinn metnað og natni í notkun múrsteina og notuðu einhvers konar trjákvoðu til að líma steinana niður. Tíminn og loftárásir hafa þó sett rækilegt mark á staðinn sem nú er á heimsminjalista UNESCO.

Eitt af því fyrsta sem leiðsögumaðurinn útskýrði fyrir okkur var að í Víetnam væri orðið bison (vísundur) ekki borið fram eins og í enskumælandi löndum (bæson) heldur væri það bíson.
Eitthvað var ég nývaknaður og skyldi ekkert hvers vegna maðurinn væri að tala um víetnamska vísunda þegar við værum að fara að skoða rústir og af hverju framburðurinn skipti svona miklu máli.

Þrátt fyrir það þótti mér gott að hann væri að vara hópinn við því þeir geta jú verið dyntóttir eins og Murugan í Kodai Kanal sagði okkur. Ég bar þetta undir Ásdísi sem gerðist óviðræðuhæf af hlátri og þá fattaði ég að nafn staðarins (My Son) í munni Víetnama hljómar helst til mikið eins og bæson. Morgunstund gefur gull í mund, ik'os...

Skoðunarferðin var bæði fróðleg og skemmtileg þrátt fyrir brennandi heitan dag. Rútan okkar var full af Áströlum en leið þeirra liggur gjarnan um þessar slóðir í sumarfríum, fara norður í hitann eins undarlega og það kann að hljóma fyrir íslensk eyru.

Engin ummæli: